Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kató yngri fyrsti málþófsþingmaðurinn

07.06.2019 - 14:30
Mynd: RÚV / RÚV
Ákvæði um að stöðva umræður vegna málþófs hefur verið í þingsköpum allt frá árinu 1876. Því hefur ekki verið beitt síðustu áratugina. Þingheimur virðist vera sammála um að það eigi einungis að gera í neyðartilfellum. Kató yngri er talinn fyrsti málþófsþingmaðurinn. Hann var upp 60 árum fyrir Krist.

„Eins og þingsköp eru nú, verða engar skorður settar við óþolandi málþófi. Í öðrum löndum, t.d. Danmörku, hafa þingflokkarnir komið sér saman um reglur sem koma í veg fyrir málþóf og tjón það og álitsmissi sem þinginu er búið af ábyrgðarlausu málæði einstakra þingmanna og þingflokka.“ 
 

Þessari fullyrðingu gæti hafa verið fleygt fram síðustu daga. Þessi klausa er hins vegar upphafið að forsíðufrétt Nýja dagblaðsins sem bar yfirskriftina; Misnotkun ræðutímans á Alþingi. Greinin er ekki alveg ný því hún var skrifuð fyrir 85 árum, í byrjun nóvember 1934. Nýja dagblaðið var málgagn Framsóknarmanna og á þessum tíma héldu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur um stjórnartaumana undir forystu Hermanns Jónassonar. Ríkisstjórn sem gekk undir nafninu stjórn hinna vinnandi stétta. Málþófið var vegna frumvarps um að vinnumiðlunum skyldi komið upp í öllum kaupstöðum landsins. Sjálfstæðismenn voru í stjórnarandstöðu ásamt Bændaflokknum.

Kallaðir þófarar

Í Nýja dagblaðinu er rifjað upp að hér áður fyrr hafi menn gengið milli bæja og þæft ull. Þeir hafi verið kallaðir þófarar.

- Nú er þófiðjan að lifna við aftur. Þófarar spretta upp eins og gorkúlur á haug. Þeir vinna reyndar ekkert nýtilegt starf eins og gert var í gamla daga. Þófið fer fram á Alþingi. Ríkissjóður borgar þófið. Almenningur horfir á iðju þófaranna með skopkenndu glotti- og íhaldsflokkurinn nýtur launanna - við næstu kosningar.

Þingræðið í hættu

Hermann Jónasson forsætisráðherra hafði áhyggjur af málþófinu og vék að því í áramótaávarpi sínu árið 1936. Hann sagði að reynslan erlendist hefði sýnt að málþóf væri ógnun við þingræðið.

„Verði þingin óeðlilega löng vegna málþófs og annarrar misnotkunar þingskapa, þá er álit þinganna í hættu, en á því græða byltingarflokkarnir, þeir sem vilja afnema þingin og innleiða kúgun og einræði. Nábúar okkar Íslendinga hafa skilið í tíma þessa hættu fyrir þingræðið. Og þeir hafa útilokað hana með því að setja þingunum starfsreglur sem fyrirbyggja málþóf og óþarfa málæði.“ 

Þingmenn eiga oft erfitt um vik að gagnrýna aðra þingmenn eða flokka og saka þá um málþóf. Staðreyndin er nefnilega sú að það eru allir jafn sekir ef svo má að orði komast. Þess vegna fara flestir varlega í að saka aðra um málþóf. Flestir hafa tekið þátt í umræðum sem taldar hafa verið málþóf eða að minnsta kosti að nálgast það. 

Þorsteinn Magnússon, sagnfræðingur og varaskrifstofustjóri Alþingis, fjallaði um málþófshefðina á Alþingi i ritinu Þingræði á Íslandi, samtíð og saga. Það var gefið út í tilefni 100 ára afmælis þingræðis á Íslandi. Hann segir að málþóf sé í raun inngreypt í umræðuhefð Alþingis. Það sé hluti af því að vera í stjórnarandstöðu að leggja rækt við þessa hefð. Hann bendir á nýlegt dæmi  Eftir 18 ára setu sjálfstæðismanna í ríkisstjórn hafi flokkurinn strax tekið upp gunnfána stjórnarandstöðunnar og gengið beint inn í málþófshefðina 2009 sem hafði óspart verið beitt í valdatíð flokksins og sem sjálfstæðismenn höfðu harðlega gagnrýnt.

Tabú að nefna málþóf á nafn

Þorsteinn bendir á að þó að málþóf hafi verið fylgifiskur þingstarfanna í langan tíma hafi orðið málþóf nánast verið eins konar tabú eða bannorð á þinginu. Það minni stundum á söguna um nýju fötin keisarans. Það sé afar sjálfgæft að þingmenn viðurkenni að hafa stundað málþóf. Samt sem áður er málþóf sterkasta birtingarmynd átakastjórnmála á Alþingi að mati Þorsteins.

Það virðist líka vera að málþóf hér sé mun algengara hér en í öðrum evrópskum þjóðþingum. Það er gjarnan bent á danska þingið. Þingsköpin þar eru reyndar mjög svipuð þingsköpum Alþingis. Þingmenn þar gætu sett sig í stellingar og beitt málþófi. Hins vegar þekkist það ekki. Málið virðist frekast snúast um umræðuhefðina.

Hægt að stöðva málþóf frá 1876

Rétt eins og oft áður hefur verið rætt um hvort binda ætti enda á umræðurnar um orkupakkann. Samkvæmt núgildandi þingsköpum getur forseti Alþingis lagt til að umræðum sé hætt. Þá er tillaga hans umræðulaust borin undir atkvæði. Þá geta geta níu þingmenn krafist þess að umræðulaust séu greidd atkvæði um að umræðu skuli lokið. Staðreyndin er sú að þetta ákvæði eða svipað hefur verið í þingsköpum Alþingis allt fá 1876 eða í 143 ár. Í grein Þorsteins Magnússonar kemur fram að framan af hafi þessu ákvæði nánast ekki veið beitt. Nokkrum sinnum á fyrri hluta 20. aldar.

Ákvæðinu var beitt 1949 þegar tekist var á af hörku um aðild Íslands að Nató. Sú ákvörðun var harðlega gagnrýnd af andstæðingum aðildarinnar og þótti gróf misbeiting valds. Frá þeim tíma hefur oft komið til tals að stöðva umræður en ekkert orðið úr því. Þingheimur er sammála um að ekki skuli beita ákvæðinu nema í neyðartilvikum.

Mynd með færslu

Geta enn talað endalaust

Þingsköpum var breytt 2007 en ekki til að koma í veg fyrir málþóf. Megintilgangurinn var að taka fyrir að þingmenn gætu haldið eins langar ræður og þá lysti. Ræðutími var styttur. Eftir sem áður geta þingmenn komið aftur og aftur í ræðustól en verða þó að halda styttri ræður. Lengd þeirra er við aðra umræðu þingsályktunartillagna 5 mínútur og það sama á við um aðra og þriðju umræðu frumvarpa.

Málþófsfrumvarp dagaði uppi

Þingheimur viðist ekki hafa mikinn áhuga á því að koma í veg fyrir málþóf. Sif Friðleifsdóttir, þá þingmaður Framsóknarflokksins, lagði fram frumvarp um breytingar á þingsköpum í þrígang en það náði ekki fram að ganga. Tillaga hennar var að í upphafi umræðna gæti forseti gert tillögu um lengd þeirra.

Siv bendir á í greinargerð að málþóf sé reyndar aldagömul aðferð til að stöðva mál og reki rætur sínar til Rómaveldis. Kató yngri sé skráður fyrsti málþófsmaðurinn. 60 árum fyrir Krist hafi hann komið í veg fyrir að Júlíus Sesar kæmi máli í gegnum rómverska þingið með því að tala fram á kvöld, en lög voru um að málum yrði að ljúka í birtu.