Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kartöfluræktun lítur betur út í ár

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson Rúnar Sn - RÚV RÚV
Bændur segja að kartöfluræktun líti vel út í ár. Þurrkar hafi þó haft áhrif. Kristján Gestsson, bóndi á bænum Forsæti IV í Flóahreppi, segir afnám innflutningsverndar á kartöflum í sumar sjálfsagðan hlut, þar sem bændur eigi ekki nóg, sökum slakrar uppskeru í fyrra.

Skjótt skipast veður í lofti

„Það er búið að vera ofboðslega þurrt og vissir akrar hafa borið skaða af. Þetta lítur vel út núna og er fljótt að breytast,“ segir hann. 

Hann segir að skemmdir á ökrunum hafi þó ekki eyðilagt uppskeru, einungis seinkað henni. Hann vonar allt það besta og segir að ef það væti annað slagið verði uppskeran í ágætum málum. 

Kristján segir afnám innflutningsverndar á kartöflum sjálfsagðan hlut þar sem þau eigi ekki nóg. Því hafi þau ekkert við það að athuga, enda sé það nauðsynlegt. Að öðru leyti sé þó tollaverndin þeim nauðsynleg. Hann segir mikla rigningu og kalt veður hafa skemmt uppskeruna í fyrra. Það sé mun betra ástand í ár þrátt fyrir litla rigningu. „Það þarf líka sólardaga og hlýju svo uppskera takist vel,“ segir hann. 

Hjónin Kristján og Anna Guðbergsdóttir hafa stundað kartöflubúskap á bænum frá árinu 1970.

Mynd með færslu
 Mynd:

Krossa fingurna að ekki komi næturfrost

Díana Rós Þrastardóttir, kartöflubóndi á Þórustöðum í Eyjafirði, segir allt líta vel út sem stendur, hitinn hafi hjálpað en það vanti þó rigningu, ekki bara úða. Hún segir þau krossa fingurna að ekki verði næturfrost. 

Díana segir ræktunina og aðstæður algjörlega óútreiknanlegar. Nú sé ræktunin svipuð og var í fyrra en þá hafi öll rigningin farið suður. 

Hvað innflutning á kartöflum varðar segir Díana að fólk kjósi heldur íslenskt þegar það er í boði, enda gæðin meiri. Nú hafi þau hins vegar ekki undan fyrirspurnum um kartöflur. Hún segist þó vona að það fari að breytast. 

Háð vindum og veðri

Þóra Kristín Magnúsdóttir, kartöflubóndi á Hraunsmúla á Snæfellsnesi, segir sumarið hafa farið erfiðlega af stað. „Það var orðið svo þurrt að þetta var orðið til vandræða. Við vorum að reyna að vökva og nú er eitthvað búið að rigna, en þetta var langur kafli þurr,“ segir hún.

Hún segir ómögulegt að spá fyrir hvernig uppskeran eigi eftir að líta út en vonar að það gangi vel og betur en í fyrra. Þá rigndi mikið og var kalt svo ræktunin náði sér aldrei á strik, segir Þóra. „Það er aldrei á vísan að róa með útiræktun. Við erum háð veðri og vindum á Snæfellsnesi eins og annars staðar á landinu,“ segir hún. 

Hún segir leiðinlegt að ekki sé hægt að rækta nóg og að það þurfi að flytja inn kartöflur. Það sé ekki óskastaðan.

Þóra Kristín og maður hennar Helgi Sigurmonsson frá Einarsnesi í Borgarfirði eru einu bændurnir sem stunda kartöflurækt að atvinnu á Vesturlandi. 

Innflutningsvernd felld niður í sumar

Ákveðið var að fella niður innflutningsvernd á kartöflur, eða tolla á innfluttar kartöflur, á tímabilinu 3. maí til 11. ágúst í ár þar sem framboð á kartöflum þyki ekki nægjanlegt og kartöfluskortur hafði gert vart við sig í verslunum í apríl. Auk þess var nær ekkert til í landinu af innlendum kartöflum í söluhæfum gæðum, samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda aflaði í apríl.