Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Karlar valda oftar alvarlegum slysum

10.05.2019 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Karlmenn stunda frekar áhættuhegðun í umferðinni og valda oftar alvarlegum slysum en konur, samkvæmt tölum Samgöngustofu. Karlar áttu sök í máli í fjórtán af fimmtán banaslysum síðasta árs. Aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn dáið í umferðinni en í fyrra.

Aldrei fleiri ferðamenn látist

15 banaslys urðu í umferðinni í fyrra og 18 létust, 12 karlmenn og sex konur eða stúlkur. Af þeim sem létust voru níu Íslendingar, sex erlendir ferðamenn og þrír erlendir ríkisborgarar búsettir hér. Einn lést vegna ölvunaraksturs. Af fimmtán banaslysum áttu karlmenn sök að máli í fjórtán tilfellum, samkvæmt nýútkominni slysaskýrslu Samgöngustofu. 11 af 18 látnum voru 36 ára eða yngri. Tólf létust í fólksbílum, fjórir í sendibílum, einn í hópferðabíl og einn á sexhjóli. Tveir létust í þéttbýli og 16 í dreifbýli.

Óvenjumikill kynjamunur

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, segir að kynjamunurinn sé yfirleitt ekki svona afgerandi. Karlmenn eru um það bil tveir þriðju ökumanna almennt og yfirleitt er hlutfallið svipað þegar kemur að minniháttar slysum og óhöppum. 

„En þegar alvarlegu slysin eru skoðuð þá sjáum við að karlmenn eru í of miklum meirihluta ökumenn í þeim tilfellum. Yfirleitt er þetta annað hvort áhættuhegðun eða eitthvað gáleysi sem menn hugsa ekki út í. Sérstaklega banaslysin, þá er þetta oft ölvunarakstur, hraðakstur. Fíkniefnanotkun í einhverjum tilfellum,” segir Gunnar.

Óvanir íslenskum aðstæðum

Ungir ökumenn valda flestum umferðarslysum heilt yfir og segir Gunnar það fyrst og fremst vera reynsluleysi. Sá hópur bætir sig hins vegar sig mest síðustu ár. Umferðarslys eru enn algeng meðal ferðamanna. 

„Þetta eru því miður líka alvarleg slys. Það létust sex ferðamenn í umferðinni í fyrra, aldrei verið fleiri á einu ári. En vandræðin sem þeir lenda í er meira þekkingarleysi á íslenskum aðstæðum, þeir eru ekki mikið að aka undir áhrifum áfengis, heldur eru þeir að fara of hratt í hálku eða malavegum eða einhverju slíku,” segir Gunnar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV