Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kári hættur við að hætta við að skima

08.03.2020 - 13:35
Mynd: Karl Sigtryggsson / Karl Sigtryggsson
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur ákveðið í annað sinn að skima fyrir COVID-19 Kórónaveirunni. Kári hafði boðist til þess fyrr í vikunni en sagði í gær að ekkert yrði af því vegna viðbragða Persónuverndar og Vísindasiðanefndar, sem sögðu verkefnið leyfisskylt og óskuðu eftir frekari upplýsingum. Nefndirnar gáfu svo grænt ljós í morgun. 

„Ég verð víst að éta orð mín ofan í mig“

Alma Möller landlæknir sagði í Silfrinu í dag að miklu máli skipti að Íslensk erfðagreining taki að sér skimun og kortlagningu veirunnar. Það væri mikilvægt fyrir bæði Ísland og heimsbyggðina alla.

„Þetta þýðir fyrst og fremst að vísindasiðanefnd og persónuvend tjáðu sig áður en þau voru búin að hugsa um málið sem er ekki heppilegt,“ segir Kári og bætir því við að almennt hafi hann þó ekkert undan störfum þeirra að kvarta. 

„Það sem pirrar mig við þetta frumhlaup vísindsviðanefndar og persónuverndar er að það þröngvar mér til þess að éta orð mín aftur og ég skammast mín náttúrulega fyrir það fyrir neðan allar hellur.“

Rakning smita er vopn gegn veirunni

Hann segir COVID-19 veiruna vera flókið mál. Veiran hafi stökkbreyst þannig að hægt sé að sjá nákvæmlega hvaðan hún kemur. Það að rekja veiruna sé hluti af því að verjast henni og sjá hvernig hún hreyfir sig í samfélaginu. 

„Einhverra hluta vegna, eins og svo oft áður, þá komust menn að þeirri niðurstöðu að við værum að gera þetta í einhverjum annarlegum tilgangi en tilgangurinn var einfaldlega bara að gera það sem ég held að menn séu almennt að gera í samfélaginu, að snúa bökum saman til þess að reyna að takast á við þennan faraldur sem lítur dálítið ógnvekjandi út, “ segir Kári. 

Gert er ráð fyrir að skimunin hefjist um miðja næstu viku. Panta þarf vél sem einangrar RNA úr sýnapinnum og þá þarf að panta efnivið til að vinna með áður en hafist er handa. Skimunin verður unnin undir stjórn sóttvarnarlæknis.