Kári bjartsýnn á sæti í Tókýó

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Kári bjartsýnn á sæti í Tókýó

22.03.2020 - 21:01
Kári Gunnarsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í badminton, heldur í vonina um að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó, fari þeir fram í sumar. Hann segist þakklátur fyrir að fá að æfa þrátt fyrir að badmintontímabilið sé í algjörri óvissu.

Kári ólst upp í Danmörku og byrjaði ungur að æfa badminton, en þar nýtur íþróttin mikilla vinsælda. Kári er í dag fremsti badmintonspilari landsins en hann er margfaldur Íslandsmeistari í greininni og hefur undanfarin ár færst ofar á heimslistanum.

 

„Ég man að ég horfði á Ólympíuleikana árið 2000 og ég horfði á bestu Danina sem voru að keppa þar og stóðu sig mjög vel. Ég var þá nýbyrjaður, ég var 9 ára. Mér fannst þetta bara svo fallegt og ég sá fyrir mér að mig langaði að gera þetta einn daginn,“ segir Kári. 

 

„Ég byrjaði strax á unga aldri að sjá fyrir mér að badminton væri leið í lífinu sem er mjög mikilvægt ef maður vill fá atvinnumenn í einhverri íþrótt, það eru fyrirmyndir. Ég fór strax að hugsa um mat og eitt árið borðaði ég ekkert nammi þegar ég var lítil, ég held ég hafi verið 12 ára. Ég æfði á hverjum degi, ég held ég hafi æft 7, 8 sinnum í viku þegar ég var 12, 13 ára.“

Kári fór til svo í háskóla og flutti til Bandaríkjanna í hálft ár. Á þeim tíma spilaði hann ekkert badminton. Þegar hann sneri aftur heim fann hann að honum fannst hann eiga eitthvað inni. Hann stakk sér því aftur á bólakaf í badmintonið fyrir þremur árum og setti stefnuna á Ólympíuleikana í Tókýó.

 

Dýrt spaug að reyna við Ólympíuleikana

Að reyna við Ólympíuleika er kostnaðarsamt og meira en Kári og badmintonsambandið ráða við. Kári setti því af stað söfnun á vefnum.

„Þetta er frekar umfangsmikið verkefni að fara í, sérstaklega sem einstaklingur í badminton á Íslandi. Ég hafði það að ég var Íslandsmeistari og hafði einhverja reynslu alþjóðlega. Á Íslandi þarftu að berjast svolítið meira og líka í íþrótt sem er ekki rík íþrótt.“

Kári hefur undanfarna mánuði æft af kappi með það að markmiði að komast til Tókýó. Framundan voru mörg alþjóðleg mót þar sem hann sá fram á að vinna sér inn stig á heimslistanum en vegna Covid-19 hefur mörgum þeirra verið aflýst og öðrum verið slegið á frest um óákveðinn tíma.

 

„Akkúrat núna er ég aðeins fyrir utan þessa 40 sem komast inn en átti fínan séns á að vinna mér þátttöku. Núna verðum við bara að bíða eftir tilkynningum frá Alþjóðabadmintonsambandinu og Ólympíunefndinni hvað gerist. Það er mikil óvissa.“

Kári er þrátt fyrir þetta bjartsýnn á að ná að tryggja sér sæti á leikunum í Tókýó.

„Það er erfitt að segja eins og staðan er en það sem ég get sagt er að mér finnst ég vera betri badmintonspilari í dag en ég hef nokkurn tímann verið. Við vorum búin að plana þetta Ólympíutímabil þannig að ég myndi toppa núna, sem er soldið leiðinlegt núna. Ef ég væri að keppa núna væri ég alla vega með sjálfstraust, sko.“

Innslagið með Kára má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.