Kanna hvort hvalaskoðun valdi streitu í hvölum

24.06.2019 - 13:38
Mynd: Danny Kosiba / Danny Kosiba
Ungir vísindamenn rannsaka nú hvort hvalaskoðun hafi áhrif á hvali og vilja lágmarka truflun frá mannfólki. Þau safna sýnum úr blæstri hvala við Húsavík og stóla á gott veður í sumar því til að safna sýnunum nota þau dróna.

Tom Grove vinnur nú að rannsóknum fyrir doktorsverkefni sitt frá Edinborgar-háskóla. Í því vill hann varpa ljósi á það hvort hvalaskoðun hafi áhrif á hvali. Til þess hefur hann fengið fleiri vísindamenn í lið með sér og rannsaka þau meðal annars magn streituhormónsins kortisóls í blæstri frá hvölum.

Lítið um reglugerðir

Grove segir hugmyndina að verkefninu hafa komið þegar hann vann við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Húsavík sumarið 2017. Mikið sé um hvalaskoðun á Húsavík en lítið um reglugerðir. Þá hafi lítið verið kannað hvort hvalaskoðunir hafi áhrif á hvalina. Hann hafi ákveðið að rannsaka þetta frekar og hafi verið heppinn að þekkja fleiri vísindamenn með áhuga á hvölum sem hafi verið ákafir í að fá að taka þátt. Síðasta sumar var hópurinn sem kallar sig Whale Wise við rannsóknir á Skjálfanda þar sem þau könnuðu hvort það væri yfir höfuð hægt að safna sýnum með þessum hætti. Það hafi gengið vel og rannsóknin er nú orðin hluti af doktorsverkefni hans.

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Hópurinn að störfum.

Tvíþætt rannsókn

Hann segir tvo mikilvæga þætti í rannsókninni. Annar þeirra sé atferlisskráning hvalanna. Með myndavélum og fjarlægðarmælum fylgjast þau með hvölum, bæði frá landi og á sjó og sjá hvernig og hvort þeir bregðist við hvalaskoðunarbátum, hvort hegðun hvalanna breytist þegar bátar eru ekki nálægt eða hvort fjöldi báta og stærðir véla hafi áhrif.

Annar þáttur sé að rannsaka sýni úr blæstri hvalanna og athuga magn kortisóls í þeim. Hormónið kortisól finnst í flestum spendýrum og eykst magn þess við streitu. Vísindamennirnir safna sýnum úr blæstri fyrir og eftir hvalaskoðun og sjá hvort magn kortisóls í sýnunum breytist. Tom segir fleira en streitu hafa áhrif á magn kortisóls í líkamanum og því sé mikilvægt að ná sem flestum sýnum svo rannsóknin sé marktæk. Í sýnasöfnuninni nota þau sérútbúinn dróna. Þau fljúga honum í gegnum blástur hvalanna og safna sýnum í petrískálar. Þau stóla því á gott veður því erfitt er að safna sýnum í vindi eða rigningu.

Mynd með færslu
 Mynd: Mark Romanov
Dróni útbúinn petrískálum.

Hvalaskoðun stór iðnaður

Hann segir gott samstarf við hvalaskoðunarfyrirtæki mikilvægt og segist þakklátur North Sailing á Húsavík því þau fái að fara með í skoðunarferðir hjá fyrirtækinu. Þau stefna á að safna 100 sýnum í sumar sem Grove tekur svo með sér til Edinborgar þar sem hann vinnur úr þeim í vetur. Hann segist vongóður um að niðurstöður verði komnar fyrir árslok 2020, hverjar sem þær verði. Hann vill ekki að rannsóknin hafi neikvæð áhrif á iðnaðinn enda sé hann mikilvægur fyrir efnahag á Húsavík og skapi mörg störf. Hann sé fylgjandi hvalaskoðun, hún gefi fólki tækifæri á að komast í návígi við hvali og upplifa stórkostlega hluti. Hann voni þó að ef að rannsóknin sýni að hvalaskoðun hafi áhrif á hvali, að fyrirtækin séu tilbúin að vinna með þeim og finna leiðir til þess að minnka áhrifin.

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi