Kanna hvort flugskeyti hafi grandað þotunni

09.01.2020 - 12:16
Erlent · Asía · flugslys · Íran · Úkraína
epa08113032 Relatives, colleagues, and friends of crew members of the Ukraine International Airlines Flight PS752 which crashed near Tehran lay flowers and light candles at Boryspil International Airport in Kiev, Ukraine, 08 January 2020. According to media reports on 08 January 2020, a Ukraine International Airlines Boeing 737-800 plane crashed soon after takeoff near Imam Khomeini Airport in Tehran, Iran. Over 170 people were thought to be on the plane, and reports state that all passengers and crew were killed in the crash.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
Fjöldi fólks hefur minnst áhafnar úkraínsku þotunnar. Þjóðarsorg er í Úkraínu í dag.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugir úkraínskra sérfræðinga og embættismanna eru komnir til Írans til að taka þátt í rannsókn á ástæðum þess að úkraínsk farþegaþota fórst í landinu í fyrrinótt. Þeir vilja að meðal annars verði kannað hvort flugskeyti eða hryðjuverkaárás hafi grandað þotunni.

Úkraínska þotan var af gerðinni Boeing 737-800. Hún hóf sig á loft frá flugvellinum í Teheran í Íran á fimmta tímanum í fyrrinótt að íslenskum tíma. Hún hvarf af ratsjám sex mínútum síðar. Enginn komst lífs af.

Flugmálayfirvöld í Íran hafa greint frá því að flugmenn hafi verið að snúa við til flugvallarins þegar þotan hrapaði. Einnig segja þeir að eldur hafi verið laus í vélinni áður en hún skall til jarðar. Flugturni hafi ekki borist nein boð um að eitthvað væri að.

Fjörutíu og fimm manna hópur úkraínskra sérfræðinga og embættismanna kom til Írans í nótt til að taka þátt í rannsókn á slysinu. Oleksiy Danilov, yfirmaður þjóðaröryggis- og varnarmálaráðs Úkraínu, segir að rannsóknin þurfi að beinast að fjórum atriðum: hvort flugskeyti hafi grandað þotunni, hún hafi lent í árekstri við dróna eða annað loftfar, hvort hryðjuverkamaður hafi verið um borð og sprengt þar sprengju eða að tæknilegri bilun sé um að kenna, eins og Íranar hafa haldið fram. Þá hefur úkraínska rannsóknarteymið farið fram á að fá að rannsaka slysstaðinn nákvæmlega.

Flugritar þotunnar fundust í gær. Samkvæmt fréttum frá Úkraínu eru minniskort þeirra skemmd, en vonir standa til að hægt verði að fá úr þeim upplýsingar um ástæðu þess að þotan fórst. Íranar neita að afhenda bandarískum sérfræðingum flugritana, en hugsanlega fá Úkraínumenn þá til frekari skoðunar.