Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kanadíski indíkúrekinn snýr aftur

epa05421284 A photgraph made available on 12 July 2016 showing  Canadian Mac Demarco performing on stage of the Montreux Jazz Lab during the 50th Montreux Jazz Festival, in Montreux, Switzerland, 11 July 2016.  EPA/MANUEL LOPEZ EDITORIAL USE ONLY  EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA

Kanadíski indíkúrekinn snýr aftur

22.10.2019 - 12:50

Höfundar

Það styttist í eina stærstu tónlistarhátíð landsins, Iceland Airwaves. Hátíðin fer fram 6.-9. nóvember, á hinum ýmsu tónleikastöðum í Reykjavík eins og ár hvert. Poppland hefur tekið sig til og fjallar um eitt atriði á dag allt þar til herlegheitin skella á, og það er af nógu að taka. Í dag verður fjallað um hinn kanadíska Mac DeMarco.

Þessi 29 ára gamli tónlistarmaður hefur vakið mikla athygli frá því hann gaf út sína fyrstu plötu, Rock and Roll Night Club árið 2012. Hann er með heldur afmarkaðan stíl, psychedelic (eða hughrifa-), lo-fi indírokk, sem lýsa mætti einfaldlega sem letilegu indírokki. Þessi sérstæði melankólíurokkari með sitt einkennandi frekjuskarð komst kannski almennilega á kortið með smáskífunni Salad Days árið 2014 en áðdáendahópur hans stækkar með hverju árinu.

Mac Demarco gaf út plötuna Here Comes The Cowboy fyrr á árinu og þar virðist sem hann sé að velta fyrir sér lífinu. Hann er í eins konar tilvistarkreppu, sem er svosem ekki nýtt minni í tónlistarsenunni eða hvers konar list yfir höfuð. Í viðtali við tímaritið Rolling Stone kveðst DeMarco vera að leita að friði í þessu hraða nútímasamfélagi, hvar allir eru að missa vitið og að titill plötunnar vísi til einfaldleikans sem kúrekinn lifir við.

epa06158779 Canadian singer-songwriter Mac DeMarco performs on stage at the Zuerich Openair, in Glattbrugg near Zurich, Switzerland, 23 August 2017. The music festival takes place from 23 to 26 August.  EPA-EFE/ENNIO LEANZA
 Mynd: EPA

 

Lögin á plötunni Here Comes The Cowboy eru áþreifanlega hugleiðandi, einmanaleg en hnyttin. Einfaldleikinn spilar stóra rullu á plötunni og það fer í taugarnar á sumum gagnrýnendum, þetta einfalda andrúmsloft sem ætti að vera það sem heillar gerir það á sama tíma ómögulegt að ná tangarhaldi á megninu af lögunum. Textarnir eru í grunninn einfaldir en skemmtileg tjáning af hugarheimi hans, fyrir utan lagið Cho Choo, sem er aftur á móti hnyttið með hálfgerðum bulltextum um lestar í fönkgrúvandi flæði með öskrandi hljóðbútum og hlátrasköllum. DeMarco hefur sannarlega prédikað hugmyndir um sjálfsskoðun og einmanaleikann áður en aldrei eins gaumgæfilega eins og með þessari plötu.

Mac DeMarco spilaði á Coachella, Rock Werchter og fleiri hátíðum í sumar. DeMarco kemur svo fram í annað sinn á Iceland Airwaves í vetur, hann kom síðast til Íslands á Airwaves árið 2013 og spilaði þá í Hörpunni og vakti mikla lukku. Hann er þekktur fyrir skemmtilegar uppákomur á sviði, ekki síst fyrir frjálslega framkomu og forvitnileg tökulög. 

Mac DeMarco kemur fram í annað sinn á Iceland Airwaves laugardaginn 9.nóvember í Listasafni Reykjavíkur. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Angurværar tregavísur um hinsegin ástir

Tónlist

Iceland Airwaves í fyrra og fyrr

Tónlist

Draumkennd lög um kynlíf og eiturlyf