Kalla eftir gögnum frá Reykjalundi

21.10.2019 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkratryggingar Íslands kanna hvort tryggt sé að starfsemi Reykjalundar geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Starfsfólk hefur áhyggjur af því að stofnunin glati þekkingu með brotthvarfi starfsfólks.

Fagráð Reykjalundar, sem í sitja fulltrúar starfsfólks, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem ítrekuð var óánægja með störf stjórnar SÍBS, sem á Reykjalund. Þá var lýst áhyggjum af því að við uppsagnir starfsfólks glati stofnunin mikilvægri sérfræðiþekkingu. Óánægja er meðal starfsfólks vegna uppsagnar forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga fyrr í mánuðinum. Samkvæmt þjónustusamningi Reykjalundar og Sjúkratrygginga Íslands greiðir ríkið um tvo milljarða á ári til rekstrarins. Það er svo á ábyrgð Sjúkratrygginga að hafa eftirlit með starfseminni. 

„Við höfum alltaf eftirlit með þeim veitendum sem eru á samningi hjá okkur. En við höfum kallað eftir ákveðnum upplýsingum í tilefni af þessum breytingum sem þarna hafa orðið,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Upplýsingarnar sem Sjúkratryggingar kalla eftir snúa meðal annars að mannabreytingum og mögulegum afleiðingum þeirra á þjónustuna.

„Við erum með samning um að Reykjalundur veiti ákveðna tegund af þjónustu í ákveðnu magni og við erum í rauninni að kanna með hvaða hætti þeir ætli að tryggja að það haldi áfram.“

Þegar ný lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi árið 2007 var fellt út ákvæði fyrri laga um að heilbrigðisráðherra kjósi einn fulltrúa í stjórn einkasjúkrahúsa og sjálfseignarstofnana. Í framhaldi af því var stjórn Reykjalundar lögð niður árið 2008. Stofnunin hefur frá því heyrt beint undir stjórn SÍBS. Starfsfólk lýsti yfir vantrausti á stjórnina eftir uppsagnir yfirmannanna og hefur auk þess lýst því yfir að óánægja þess muni bitna harkalega á sjúklingum. 

„Er ástæða til að ætla að Reykjalundur geti ekki uppfyllt þjónustusamning sinn við ríkið? Ég vil nú bíða og sjá hvernig þessi gögn líta út áður en við tökum afstöðu til þess.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi