Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kaldhæðinn og berskjaldaður lífskúnstner

Mynd: Benjamín / Benjamín

Kaldhæðinn og berskjaldaður lífskúnstner

08.12.2019 - 15:30

Höfundar

Þórdís Gísladóttir neitar að upphefja ljóðformið í Mislægum gatnamótum og setur fram skýra sýn á veruleikann, sýn lífskúnstners sem er kaldhæðinn og berskjaldaður í senn, að mati bókarýnis Víðsjár.

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Þórdís Gísladóttir ljóðskáld hefur getið sér gott orð fyrir að skrifa fyndin og skemmtileg ljóð sem jafnvel höfða til fólks sem almennt forðast ljóðabækur, óttast kannski að formið sé torskilið, tilgerðarlegt og upphafið. Þessi ótti er auðvitað stundum á rökum reistur og því skiljanlegur og því má segja að ljóðin hennar Þórdísar virki á þerapeutískan hátt fyrir þennan lesendahóp, svari þörf fyrir skáldskap í hinu knappa formi ljóðsins, sem hægt sé að njóta, kannski með kaldan bjór í annarri, á meðan kvöldmaturinn hitnar í ofninum, eða þegar beðið er eftir strætó og engir skemmtilegir í nánasta umhverfi að eiga í samræðum sem hægt er að hlera. Nýjasta bók Þórdísar, Mislæg gatnamót, er einmitt svoleiðis bók, þótt sum ljóðanna þyrfti svo ef til vill að lesa aftur, í meira næði, en þar á ég sérstaklega við þau þeirra sem fjalla um erfiðar tilfinningar og tilvistarleg spursmál. En nú er ég kominn aðeins fram úr mér. Byrjum á byrjuninni.

Eitt helsta viðfangsefni Þórdísar er hversdagsleikinn, í öllum sínum notalegu og napurlegu birtingarmyndum. Titillinn, Mislæg gatnamót, gefur þetta til kynna, og er kostulegri táknmynd hversdagsleikans reyndar vandfundin. Ef við vildum kafa dýpra mætti náttúrulega segja að mislæg gatnamót gætu táknað firringu borgarsamfélagsins, að þurfa að beygja í eina átt til að komast í þá gagnstæðu, en líklega værum við þá að seilast lengra en bókin biður um, þótt ljóð eins og „Allir þessir dagar“, sem er þriðja ljóðið í bókinni, vísi til þess hvernig fólk missir hvort af öðru þegar samskipti fara að mestu fram í birtu tölvuskjásins. Mislægu gatnamótin koma í veg fyrir að bílar mætist þegar þeir keyra í gagnstæða átt hvor við annan og fjarlægðin sem ljóðið gerir að viðfangsefni sínu rímar ágætlega við þetta einkenni gatnaskipulags nútímans; „skjábirtan er varðeldur“ þess sem nálgast aðra á samfélagsmiðlum, samskipti eru skilvirk en nándina skortir.

Samfélagsmiðlar og aðrir miðlar sem móta nokkurs konar fyrirmyndarsjálf skjóta iðulega upp kollinum í bókinni, þá gjarnan á þann hátt að sú djúpa gjá sem aðskilur glansmyndina og raunveruleikann er dregin upp á yfirborðið. Í ljóðinu Grannkonan er sagt frá konu sem „á sér langa sögu um illa ígrundaðar ákvarðanir“ og hefur aldrei látið undan þeim hópþrýstingi að hún skuli stofna til fjölskyldu. Hún veltir fyrir sér kröfunum sem gerðar eru til mæðra þeirra „blíðu skrímsla“ sem börn eru, til að „sanna hamingju sína, / sjóða sultu, / baka kökur úr vandmeðförnu hráefni / eða undirbúa rauðrófuhummus.“ Vegna þess að „óhamingjusamt fólk býr ekki til berjahlaup.“ Í ljóðinu „Botnlangar“ segir frá konu sem „fer stundum að gráta / þegar börnin eru sofnuð / því hana langar að vera horuð persóna í rómantískri gamanmynd / sem talar hátt um sjálfa sig, maular Xanax og fer til spákonu / sem gefur henni áfengi.“

Sjónarhornið í Mislægum gatnamótum er gjarnan kvenlægt, eins og sést í áðurnefndu ljóði, Allir þessir dagar, þar sem „Skammdegislægðir / þyrla sér yfir okkur ein af annarri / á meðan vöðvar bólgna og / naglalakkið flagnar af.“ Flest ljóðin fjalla líka oftast um kvenpersónur, eins og Áform sem segir frá konu sem var „full góðra áforma“ fyrir áramót, en eftir því sem vikurnar líða er hún þó „enn á Simone de Beauvoir-kúrnum, fór á fætur um tvöleytið, borðaði unnar kjötvörur, reykti og drakk of mikið vín.“ Húmorinn í ljóðunum er svartur, eins og hlustendur hafa ef til vill þegar tekið eftir af áðurgreindum dæmum. Ljóðið „Jólaskraut“ mun seint verða að jólalagatexta, en það fjallar um Agnesi Laufeyju, sem þráir morfínvímu þegar hún á að taka niður jólaskrautið, sem hún vill frekar henda út með trénu eða „kveikja hreinlega í húsinu“. Þar sem hún liggur fyrir um miðjan dag hugsar hún „um að það eina sem haldi fjölskyldunni saman, fyrir utan húsnæðislánið og hundinn, sé allt jólaskrautið.“ Þótt fæstir komist kannski í jólaskap við þennan lestur, er líklegt að hann laði fram bros.

Skammdegi og kuldi ríkja í mörgum ljóðanna, en síðasta ljóðið, „Þakkarbæn“, er hlýtt, andrúmsloft þess sjarmerandi og grundvallarhugmyndin falleg. Eins og fyrstu tvö erindin sýna, telur ljóðmælandi upp hversdagsleg fyrirbæri sem við ættum kannski að vera þakklát fyrir, en gleymast yfirleitt í jólaprédikunum íslenskra sóknarpresta.

„Takk fyrir
bælingu og sjálfslygi,
skriftastóla vináttunnar,
bjórdælur,
kertaljós,
kossa,
og getnaðarvarnir.
Takk fyrir
skuggsæl völundarhús,
verkjatöflur,
ofnæmislyf,
almenningssamgöngur
og hormónastíla
sem stungið er í leggöng.“

Í þessum fyrstu erindum ljóðsins gæti virst sem um háð sé að ræða, eða að minnsta kosti sé verið að dásama hið hversdagslega á léttu nótunum, en síðasta erindið breytir yfirbragði og merkingu ljóðsins á róttækan hátt.

„En umfram allt,
takk fyrir hæfileikann til að geta staulast
óöruggum skrefum,
en þó standandi í lappirnar,
yfir flest sprengjusvæði lífsins.“

Síðasta erindið skapar mótvægi við léttúðina sem einkennir þau sem koma á undan. Það dregur fram mikilvægi þess sem virðist smávægilegt, jafnvel ómerkilegt, vegna þess að það er það sem kemur okkur í gegnum það sem er erfitt og alvarlegt. Því má segja að Þórdís stundi það ekki einungis að neita að upphefja ljóðformið, afhelga það jafnvel, heldur setur hún í ljóðum sínum fram skýra sýn á veruleikann, sýn lífskúnstners sem er kaldhæðinn og berskjaldaður í senn.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal

Bókmenntir

Horfið ekki í ljósið - Þórdís Gísladóttir

Bókmenntir

Dauði, sorg og týpuálag samtímans