Kahninn, Hera og Une Misère með nýtt

Mynd: HAM / Facebook

Kahninn, Hera og Une Misère með nýtt

12.01.2020 - 13:18

Höfundar

Í Undiröldunni að þessu sinni er þetta helst: við heyrum lag um togara á Suðurnesjum, annað lag sem sló í gegn á Feneyjatvíæringnum og lag frá fyrstu þungarokkshljómsveit landsins sem fær listamannalaun og auðvitað er ýmislegt fleira gott.

Kahninn - Daystar

Guðmundur Jens Guðmundsson sem kallar sig Kahninn hefur sent frá sér lagið Daystar. Lagið fjallar um Keflavík og Njarðvík og togarann Dagstjörnuna sem Kahninn man eftir á þessum slóðum í æsku.


Hera - Process

Hera Hjartardóttir hefur búið Nýja-Sjálandi um nokkurt skeið en er núna komin aftur til Íslands og stefnir að því að gefa út nýja plötu á þessu ári. Fyrsta lagið í spilun af plötunni var How Does A Lie Taste? en nú sendir Hera frá sér lag númer tvö sem er lagið Process.


Benni Hemm Hemm - Davíð 51

Benedikt Hermann Hermannsson, sem er líklega best þekktur sem Benni Hemm Hemm sendir frá sér lagið Davíð 51 á morgun en það er annar söngull af plötunni Kast Fast Spark sem er væntanleg fjótlega. Textinn við lagið er á trúarlegum nótum en hann er tekinn úr Davíðssálmi 51 úr Gamla testamentinu.


LØV & LJÓN - Mannsbarn

Plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni var Nætur frá dúettinum LØV & LJÓN sem er skipaður þeim Einari Lövdahl og Agli Jónssyni. Lagið Kaflaskil hefur náð töluverðum vinsældum og ef eitthvað er að marka teljara Spotify þá ætti Mannsbarn að verða næsti söngull af Nóttum.


Grísalappalísa - Innrásin

Meira af plötu vikunnar á Rásinni því Týnda rásin, svanasöngur Grísalappalísu, er í aðalhlutverki frá mánudegi til föstudags á Rás 2 og fá hlustendur að heyra lögin og sögurnar á bak við lögin frá liðsmönnum Grísalappalísu.


Ham - Haf trú

Nú styttist í stórtónleika Ham í Listasafni Reykjavíkur en hljómsveitin hefur undanfarin misseri unnið hug og hjörtu listaheimsins á Ítalíu með lagi sínu Chromo Sapiens. Lagið er hluti af samstarfsverkefni Ham, Skúla Sverrissonar og listakonunar Hrafnhildar Arnardóttur sem var á Feneyjatvíæringnum í fyrra en samnefnd sýning verður opnuð daginn áður á sama stað.


Une Misère - Beaten

Þann fyrsta nóvember sendu þungarokks-krúttin í Une Misère frá sér sína fyrstu breiðskífu hjá útgáfufyrirtækinu Nuclear Blast. Í laginu Beaten malla þeir saman dauðarokki og drum-n-bass eins og ekkert sé eðlilegra, enda fyrsta þungarokkshljómsveitin í Íslandssögunni sem fær listamannalaun.