Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kærustupar vann í 100 metra hlaupi

Mynd: RÚV / RÚV

Kærustupar vann í 100 metra hlaupi

13.07.2019 - 19:00
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum hófst í 93. sinn á Laugardalsvelli í dag. Mótinu lýkur síðdegis á morgun. Úrslitin í 100 metra hlaupum karla og kvenna voru að vanda æsispennandi.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir Íslandsmethafi í 100 metra hlaupi og Tiana Ósk Whitworth fyrrverandi methafi kepptu hvorugar í dag. Hlaupið fór þó vel fram og nokkur spenna.

Það fór svo að lokum að Dóróthea Jóhannesdóttir úr FH kom fyrst í mark. Sigurtími Dórótheu var 11,98 sekúndur og meðvindur var 1,9 metrar á sekúndu sem telst löglegur vindur.

Dóróthea er Íslandsmeistari í 100 metra hlaupi árið 2019. Önnur í mark var Andrea Torfadóttir úr FH á 12,14 sekúndum en þriðja var Agnes Kristjánsdóttir úr ÍR á 12,19. 

„Ég er svo glöð. Fyrsta skipti undir 12 [sekúndur]. Þetta er æði. Bara geðveikt.“ sagði Dóróthea eftir hlaup sitt í dag.

Hjá körlunum mátti búast við afar spennandi úrslitahlaupi milli Ara Braga Kárasonar, Kolbeins Haðar Gunnarssonar og Jóhanns Björns Sigurbjörnssonar. Jóhann Björn þjófstartaði þó og var þar með úr leik. En allt gekk að óskum í annarri tilraun og vart mátti á milli sjá hvort Ari Bragi eða Kolbeinn Höður kæmu fyrr í mark.

Ari Bragi sigraði á 10,76 sekúndum en tími Kolbeins var 10,78 sekúndur. Svo vill til að Ari Bragi og Dóróthea eru par. Og nú bæði ríkjandi Íslandsmeistarar í 100 m hlaupi.

„Ég var svona létt stressaður, ég er búinn að keppa mjög lítið í 100 [metra hlaupi] í sumar. Ég er bara búinn að ná einu 100 metra hlaupi í keppni og einu 200. Þannig að það er smá skrekkur í mér ennþá. En ég er bara í formi og er að hlaupa ágætlega held ég.“ sagði Ari eftir hlaup dagsins.

Aðspurður um hvaða þýðingu það hefði fyrir þau Dórótheu að vinna bæði í dag sagði Ari: „Það hefur bara góða þýðingu held ég. Ætli það verðir ekki fagnað bara á sunnudaginn, ekki í kvöld af því við erum að hlaupa 200 metra á morgun. Það verður fagnað á einhvern geggjaðan hátt.“

Þá voru tvíburasystkini hlutskörpust í 400 metra hlaupi. Hinrik Snær Steinsson var fyrstur í mark í 400 metra hlaupi karla á 48,33 sekúndum en í kvennaflokki vann tvíburasystir hans Þórdís Eva Steinsdóttir á 56,82 sekúndum.

Þá setti Erna Sóley Gunnarsdóttir mótsmet í kúluvarpi og Arnar Pétursson vann sinn 27. Íslandsmeistaratitil er hann keppti í 3000 metra hindranahlaupi. Sjá má nánar um það hér.

Alla sigurvegara dagsins má sjá að neðan. Meistaramótið heldur áfram á morgun.

Sigurvegarar í hlaupagreinum karla

Grein Sigurvegari Félag Tími
100m Ari Bragi Kárason FH 10,76
110m grind Ísak Óli Traustason UMSS 15,14
400m Hinrik Snær Steinsson FH 48,33
1500m Sæmundur Ólafsson ÍR 4:04,82
3000m hindr. Arnar Pétursson* ÍR 9:48,03
4x100m Kormákur Ari, Trausti, Kolbeinn Höður, Ari Bragi FH 41,55

 

Sigurvegarar í hlaupagreinum kvenna

Grein Sigurvegari Félag Tími
100m Dóróthea Jóhannesdóttir FH 11,98
100 grind María Rún Gunnlaugsdóttir FH 14,00
400m Þórdís Eva Steinsdóttir FH 56,82
1500m Sólrún Soffía Arnarsdóttir FH 4:53,39
4x100m Anna, Þórdís Eva, Dóróthea, Melkorka Rán FH 47,66

 

Sigurvegarar í kast- og stökkgreinum karla

Grein Sigurvegari Félag Lengd
Hástökk Kristján Viggó Sigfinnsson Ármann 1,99
Kúluvarp Guðni Valur Guðnason ÍR 17,09
Spjótkast Guðmundur Hólmar Jónsson UFA 56,33
Þrístökk Bjarki Rúnar Kristinsson Breiðablik 13,92

 

Sigurvegarar í kast- og stökkgreinum kvenna

Grein Sigurvegari Félag Lengd
Kúluvarp Erna Sóley Gunnarsdóttir ÍR 15,68
Spjótkast María Rún Gunnlaugsdóttir FH 40,97
Stangarstökk Hulda Þorsteinsdóttir ÍR 3,70
Þrístökk Hildigunnur Þórarinsdóttir ÍR 11,62