Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kæru vegna breikkunar Vesturlandsvegar vísað frá

09.02.2020 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur vísað frá kæru níu sveitarfélaga vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Nefndin fellst á að mikilvægir hagsmunir felist í því að tryggja umferðaröryggi en það séu almannahagsmunir en ekki hagsmunir sveitarfélaganna sem kærðu ákvörðunina.

Akranesbær ákvað að kæra ákvörðun SKipulagsstofnunar í júní á síðasta ári. Síðan bættust við hin sveitarfélögin á Vesturlandi; Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Eyja-og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Dalabyggð, Helgafellssveit, Borgarbyggð og Grundafjarðarbær.

Síðastnefnda sveitarfélagið krafðist auk þess að Skipulagsstofnun yrði gert að taka málið aftur til meðferðar. 

Til stendur að breikka veginn um Kjalarnes í 2+1 ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-,hjóla- og reiðstígum. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í júní að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Bæjarstjóri Akraness sagði í fréttum RÚV síðasta sumar að breikkun vegarins væri mikið öryggismál.  „Við óttumst að þetta muni tefja framkvæmdina og því viljum við að allir aðilar muni koma sér saman um það að flýta öllum skrefum sem þarf svo að þessi aðgerð hjá Skipulagsstofnun muni ekki tefja þetta frekar,“ sagði Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

Sveitarfélögin sögðu í kæru sinni að breikkun vegarins myndi ekki hafa í för með sér veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki væri hægt að fyrirbyggja eða bæta úr. Þá bentu þau á að Vesturlandsvegur væri afar mikilvæg tenging íbúa sveitarfélaganna við höfuðborgarsvæðið. Umferðaröryggi vegarins skipti miklu máli og það væri eitt þeirra velferðarmála sem sveitarfélögum bæri skylda að sinna samkvæmt lögum.

Þá sögðu þau að mat á umhverfisáhrifum myndi seinka framkvæmdunum um umtalsverðan tíma. Breikkun Vesturlandsvegar væri forgangsmál og sveitarfélögunum væri umhugað um að ekki yrðu fleiri slys á þessum vegarkafla. 

Skipulagsstofnun sagði í svörum sínum að ljóst væri að umferð um veginn myndi aukast sem og umferðarhraði fram hjá þéttbýlasta svæðinu á Kjalarnesi. Hávaði yrði yfir viðmiðunarmörkum og þá hefði einnig verið horft til atriða eins og mengunar og ónæðis þegar ákvörðunin var tekin. 

Úrskurðarnefndin taldi að sveitarfélögin ættu ekki aðild að kærumálinu og vísaði kærunni því frá. Nefndin segir í niðurstöðu sinni að ekki verði borið á móti því að mikilvægir hagsmunir felist í því að tryggja umferðaröryggi fólks. „Þar er þó um almannahagsmuni að ræða, en ekki einstaklingsbundna hagsmuni þeirra sveitarfélaga sem að kærumáli þessu standa,“ segir í ákvörðun nefndarinnar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV