Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kærkomið kammerpopp

Mynd með færslu
 Mynd: Melchior

Kærkomið kammerpopp

21.12.2019 - 12:44

Höfundar

Ný plata mektarsveitarinnar Melchior er óður til Hótel Borgar og ber þarafðleiðandi nafn hótelsins. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Melchior áttu innslög góð plötulega í upphafi ferils og eftir því var tekið, Silfurgrænt ilmvatn og Balapopp komu út 1978 og 1980 í miðjum pönkhræringum en bera ekki merki þess, innihaldið ljúfsárt, melódískt og einkar þekkilegt kammerpopp. Samtímasveitir eins og Spilverk þjóðanna, Þokkabót og jafnvel Diabolus in Musica komu óneitanlega upp í hugann þegar á var hlýtt (þó að undirritaður hafi ekki hlýtt á í rauntíma, enn í leikskóla þá). Að vísu eru plöturnar tvær harla ólíkar hvað áferð varðar, sú fyrri lungnamjúk og kristaltær, sú seinni til til muna hrárri og galsafengnari, hugsanlega vegna rísandi pönkbylgju.

Þrír

Melchior er merkileg að því leyti að þar lögðu þrír lagasmiðir einatt fram lög, þeir Karl Roth, frændi hans Hilmar Oddsson og svo Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson. Karl er iðulega sá súrrelíski, Hilmar á popplínunni og Hróðmar bundinn í hálfklassískt form, svo ég grófflokki þá. Melchior hefur gefið út tvær plötur til viðbótar þar sem unnið er innan sama ramma, meira og minna (Melchior, 2009 og Matur fyrir tvo, 2012). Hótel Borg er því fimmta hljóðversplatan og sem fyrr er hoggið í sama kammer-knérunn. Ásamt þeim félögum skipa sveitina hér þau Kristín Jóhannsdóttir söngkona, Gunnar Hrafnsson bassaleikari og Kjartan Guðnason trommuleikari. Allir textar eru tengdir hinu sögufræga hóteli á einn eða annan hátt en Melchior rýnir í söguna og leitar einnig í eigin reynslubanka. Vandaður upplýsingabæklingur geymir texta en einnig stuttar ádrepur sem tengja þá. Maður veltir því fyrir sér hvort að plata sem þessi, ég er að handfjatla fallega geislaplötu meðfram skrifum, sé með síðustu Móhíkönum á öld streymis. Sem er sumpart synd. Hönnunin er glæst, matt og glansað umslagið felur í sér mynstur sem finna má í marmaragólfi inni á Borginni. Eigulegur gripur, algerlega.

Ekkert slor

Tónlistin er heldur ekkert slor. Þægindabundið, umlykjandi kammerpopp sem þó er ekki allt þar sem það er séð. Skemmtilegir snúningar í töktum og byggingum, óvæntar sveigjur og beygjur en allt aðgengilegt á sama tíma. Karl á tvö lög, Hilmar fimm og Hróðmar fimm sömuleiðis. Karl á mikið til texta, stundum í samstarfi við vini sína. Karl á samnefnt upphafslagið og „Búa um rúm“, nokkuð kenjótt lög hvort á sinn hátt og liggja vel í stíl höfundarins. Hilmar, smellasmiðurinn, á t.d. hið frábæra „Borgardjamm“, drífandi smíð og pínu Steely Dan jafnvel. „Alla leið til stjarnanna“ sýnir fjölhæfni hans, falleg ballaða. Hróðmar snarar t.d. fram „Gamli dansarinn“, notaleg og sígild Melchior-smíð mætti segja, með suðrænum vísunum. Hann á líka „Eldhúsþula“, virkilega vel samsett lag og hann á líka „Guð býr á Borginni, Magga“, sem rennur í klassískum gír. Nei, það eru engir aukvisar sem setja saman söngva hér, og maður freistast til þess að halda því fram að svona hagi gjafir reynslunnar sér. Heildarpakkinn er einkar sannfærandi og ég er ekki frá því að þetta sé besta plata sveitarinnar frá því að hún var endurreist.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Jólaplata sem bragð er að

Popptónlist

Allt sett upp á borð

Popptónlist

Dansað miklu meira