Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kærðu 40 mál tengd utanvegaakstri árið 2018

03.06.2019 - 21:28
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Forstjóri Umhverfisstofnunar segir langtímaverkefni að koma í veg fyrir utanvegaakstur. Umhverfisstofnun kærði 40 slík mál til lögreglu á síðasta ári. Stjórnarmaður í Landvernd segir ljóst að skýr ásetningur hafi verið að baki utanvegaaksturs í Mývatnssveit í gær.

Það vakti talsverða athygli og almenna hneykslan þegar fréttir bárust af því að ferðamaður hefði ekið jeppa yfir viðkvæmt jarðhitasvæði nálægt jarðböðunum í Mývatnssveit í gær. Maðurinn er rússnesk samfélagsmiðlastjarna og athæfið virðist hafa verið skipulagt en það var myndað i bak og fyrir og birt á Instagram. Hann fékk 450 þúsund króna sekt fyrir athæfið. 

Páll Ásgeir Ásgeirsson, stjórnarmaður í Landvernd og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunnar, voru gestir Kastljóss í kvöld. Páll segir ljóst að skýr ásetningur hafi verið til staðar. Hann segir mikilvægt að áróðri sé haldið áfram og að sektir verði hækkaðar enn frekar. 

„Þegar maður lítur á atvik eins og þetta þá er mjög erfitt að skilja hvernig þetta hefur mátt gerast nema með skýrum ásetningi vegna þess að þarna er merkingum alls ekkert áfátt. Það er ekkert sem gefur til kynna að þarna sé í lagi að aka útaf veginum eins og þessi maður gerði, “ segir Árni

Kristín segir að vandamálið sé algengt en þó virðist hafa dregið úr fjölda brota. Það megi meðal annars þakka fjölgun landverða sem leiði af sér að fleiri brot séu tilkynnt. Kristín segir að ekki sé merkjanleg aukning í fjölda brota. Kærum hefur aftur á móti fjölgað en Umhverfisstofnun kærði um fjörutíu mál af þessum toga til lögreglu árið 2018. Það má rekja til þess að Umhverfisstofnun er sífellt að skerpa verkferla og „verða grimmari“ í úrvinnslu þessa málaflokks, að sögn Kristínar. Þá segir Kristín mikilvægt að tilkynningum sé fylgt vel eftir og að menn séu látnir greiða sektir verði þeir uppvísir að broti. 

„Það eru auðvitað heimildir í nátturverndarlögum til þess að gera ökutæki upptæk en í mörgum tilvikum eru þetta auðvitað ekki ökutæki þeirra aðila sem gerðu þetta. En númer 1,2 og 3 er auðvitað að koma í veg fyrir tjón og það eru skýrar reglur og skýr eftirfylgni með þeim, “ segir Kristín. 

Hér er hægt að horfa á viðtalið.