Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kæra framkvæmdaleyfi fyrir Hvalárvirkjun

09.07.2019 - 08:10
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fern náttúruverndarsamtök hafa kært framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Árneshrepps fyrir fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum. Landvernd, Rjúkandi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar krefjast þess að framkvæmdir verði stöðvaðar þangað til úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur farið yfir málið.

„Við erum að kæra framkvæmdaleyfi fyrir fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar. Við nefnum mjög margar ástæður fyrir því að það eigi að ógilda þetta framkvæmdaleyfi. Meðal annars teljum við að það sé ekki lögmætt að skipta upp skipulagi á þennan hátt, eins og þarna er gert, það er veitt leyfi í bútum fyrir framkvæmdinni. Við höldum því fram að náttúruverndarlög séu brotin. Þarna á að taka efni í vegi úr stöðuvatni sem nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Svo á að raska þarna óbyggðu víðerni með veglagningu. Síðan kemur fram í framkvæmdaleyfinu að þarna eigi að leggja vegi til þess að hægt sé að stunda rannsóknir. En það er algjörlega ljóst að til þess að stunda þessar rannsóknir er ónauðsynlegt að leggja vegi. Þannig að þarna á að fara út í rask í nafni rannsóknar sem er ekki nauðsynlegt. En í raun er bara verið að byrja á virkjuninni og leggja vegi sem eru nauðsynlegir fyrir hana,“ segir Auður Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Landverndar.

Nú myndi einhver segja, þið búið ekki þarna á staðnum, kemur ykkur þetta mál eitthvað við?

„Já, að sjálfsögðu kemur okkur þetta mál við. Þessi óbyggðu víðerni þarna, fossarnir og vötnin eru málefni okkar allra. Þetta er alveg gífurlega fallegt svæði og einstaklega verðmætt og einstætt a.m.k. í Evrópu og eiginlega á heimsvísu,“ segir Auður.

Og þið farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan nefndin fjallar um málið?

„Já, þarna getur orðið rask sem er algjörlega óafturkræft þó lítið verði gert. Þannig að við viljum að framkvæmdir verði strax stöðvaðar,“ segir Auður.