Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Júlíus í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi

18.12.2018 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var nú fyrir stundu dæmdur í tíu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir peningaþvætti. Dómurinn er skilorðsbundinn í tvö ár. Júlíus Vífill var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna.

Júlíus var með ákæru Héraðssaksóknara í ágúst sakaður um að þvætta tugmilljóna ávinning af fyrndum skattsvikum. Júlíus viðurkenndi að hafa ekki greitt skatta af fjármunum sem hann átti á erlendum bankareikningi, en upphæðin var ekki nákvæmlega ljós. Í ákæru var hann sagður hafa þvættað 49 til 57 milljónir króna, sem voru sagðar vera ávinningur af skattsvikum.

Rannsókn skattayfirvalda á málinu fór af stað eftir að Kastljós fjallaði um Panamaskjölin í apríl 2016. Þar var greint frá aflandsfélaginu Silwood Foundation í eigu Júlíusar. Hann er eini Íslendingurinn úr Panamaskjölunum sem hefur sætt ákæru vegna þess sem þar kom fram.

Júlíus neitaði sök þegar ákæran var þingfest í september. Í greinargerð sem hann skilaði til héraðsdóms kom fram að hann teldi sakamálið sprottið af því að hann væri fyrrverandi stjórnmálamaður – aðrir hefðu aldrei fengið sambærilega meðferð. Þá gagnrýndi hann að yfirmaður rannsóknarinnar væri félagsmaður í Vinstri grænum og sagði hann því vanhæfan til að fara með málið.

Við aðalmeðferð málsins fór saksóknari fram á átta til tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi yfir Júlíusi. Hann sagði brotin ósvífin og að taka bæri hart á þeim.