Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Júlíus hafi játað að vera með sjóð foreldranna

18.05.2016 - 20:10
Systursonur og tvö systkini Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa, segja að hann hafi gengist við því degi eftir opinberun Panama-skjalanna að sjóðir foreldra hans væru geymdir í aflandsfélagi hans. Júlíus svarar því ekki beint en segir ósannindi að hann hafi sölsað undir sig sjóði annarra. Systkini hans og móðir, sem lést í haust, hafa í fjölda ára reynt að leita að fjármunum sem faðir þeirra mun hafa safnað á erlenda bankareikninga. Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld.

Rætt var við dóttur Ingvars og Sigríðar, barnabarn þeirra og lögmann sonar þeirra í Kastljósi í kvöld. Umfjöllun byggði einnig á gögnum sem fengust úr Panama-skjölunum svokölluðu sem unnin voru í samvinnu við Reykjavík MediaAlþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung.

Bílaumboðið Ingvar Helgason hf. var eitt stærsta fyrirtæki landsins þegar stofnandinn lést árið 1999. Það var milljarða virði, með meira en fjórðungshlutdeild á bílamarkaðnum. Fimm árum síðar var það selt á 25 milljónir. Þá upphófst mikil leit ekkju hans, Sigríðar, að varasjóði sem var þannig til kominn að Ingvar Helgason hafði lagt öll umboðslaun frá bílaframleiðendunum sem hann seldi bíla frá, inn á reikninga erlendis. Sú leit bar ekki árangur og sjóðurinn var ófundinn þegar Sigríður féll frá í haust.

Þegar í ljós kom nú í apríl að eitt systkinanna átta hafði stofnað aflandsfélag, að sögn utan um eigin eftirlaunasjóð, töldu önnur að þar væri komin skýringin. Þau bera enda að Júlíus Vífill, bróðir þeirra, hafi hringt í þau eftir þáttinn og viðurkennt að þarna væri um að ræða sjóðinn sem faðir þeirra hafði safnað. Hann hafi hins vegar sagt föður sinn hafa fært sér og bræðrum sínum tveimur yfirráð yfir sjóðnum. Júlíus á hins vegar að hafa sagt að hann hafi alltaf ætlað að færa féð inn í dánarbú foreldra sinna, en ekki hafa fundið rétta tímann til þess, að sögn systursonar hans sem rætt var við í Kastljósi.

Þessu játar hann hvorki né neitar núna, en segist þó aldrei hafa gengið í eða sölsað undir sig sjóði í eigu annarra. Júlíus Vífill var borgarfulltrúi í fjórtán ár, en sagði af sér eftir að upp komst um aflandsfélagið Silwood, sem hann stofnaði í lok árs 2013. Í samtali við Kastljós vildi Júlíus engum spurningum svara og þekktist ekki boð um viðtal, né vildi hann svara spurningum Kastljóss skriflega.

Meðal þess sem systkinin hafa óskað skýringa á eru kaup dularfulls erlends fjárfestis á tæplega 20% hlut í fjölskyldufyrirtækjunum, Ingvari Helgasyni hf. og Bílheimum hf., árið 2001. Fjárfestingin var liður í því að koma til móts við kröfur viðskiptabanka fjölskyldufyrirtækjanna sem þá stóðu orðið illa. Aldrei hefur verið upplýst um hvaða fjárfestir það var sem ákvað á þessum tímapunkti að leggja 2,2 milljónir evra, jafnvirði 300 milljóna króna, inn í félagið sem þá stóð höllum fæti. 

Fjárfestingin fór í gegnum félagið Lindos Alliance sem sagt var skráð í Lúxemborg. Fulltrúi þess tók ekki sæti í stjórn eða sást yfirleitt í tengslum við fjárfestingu sína í íslensku félögunum. Þess í stað veitti hann umboð til Júlíusar Vífils Ingvarssonar, sem skrifaði undir og fór með atkvæði Lindos á fundum fjölskyldufyrirtækjanna. 

Samkvæmt rannsókn sem hluti erfingja dánarbús Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur, fól breska rannsóknarfyrirtækinu K2 að gera, er ekkert félag til með nafninu Lindos Alliance í Lúxemborg. Og hefur aldrei verið til.

Panama-skjölin skýra það. Félagið Lindos Alliance var stofnað og skráð á Tortóla nokkrum vikum áður en það fjárfesti í fyrirtækjum fjölskyldunnar á Íslandi árið 2001. Stofnandi þess var félagið KV associates í Lúxemborg með aðstoð Mossack Fonseca. KV var þó líklega aldrei eigandi Lindos Alliance, enda er það fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við auðuga viðskiptavini sína, meðal annars með rekstri og uppsetningu aflandsfélaga. Í kúnnahópi þess voru oftar en ekki Íslendingar, eins og sjá má í umfjöllun sem byggð er á Panamaskjölunum.

Það skal tekið fram að Kastljós hefur ítrekað haft samband við bæði Guðmund Ágúst og Júlíus Vífil Ingvarssyni. Í símtölum og með tölvupósti hefur verið óskað eftir svörum við nokkrum grundvallarspurningum, svo sem þeim hver hafi verið eigandi Lindos Alliance, hvaðan féð hafi komið sem lagt var inn á reikning aflandsfélags Júlíusar Vífils, Silwood, hvort hann hafi viðurkennt fyrir systkinum sínum að þetta væri sjóður foreldra þeirra, eins og þau bera öll að hann hafi gert og ýmislegt fleira sem skiptir máli í þessari frásögn. Þeir hafa kosið að svara engu. Júlíus Vífill sendi Kastljósi hins vegar þessar línur í dag:

„Það litla sem ég hef séð að fram kemur í þessum þætti Kastljóss eru ýmist algjör ósannindi eða ómerkileg illmælgi. Sérstaklega er ótrúlega ófyrirleitið að halda því fram að ég hafi með einhverjum hætti gengið í eða sölsað undir mig sjóði í eigu annarra sem eru gróf ósannindi og mannorðsmeiðandi. Er yfirleitt hægt að bregðast við getgátum og dylgjum sem ekki byggja á neinum gögnum? Úr ágreiningi varðandi skipti á dánarbúi sem nú er í opinberum skiptum verður leyst með öðrum hætti en í Kastljósþætti ríkissjónvarpsins. Ég áskil mér allan rétt til að bregðast síðar við þessum þætti.“