Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Júlíus grunaður um skattsvik og peningaþvætti

04.09.2017 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er til rannsóknar hjá embætti Héraðssaksóknara grunaður um stórfelld skattsvik og peningaþvætti. Málið snýst um fjármuni sem Júlíus mun hafa átt á erlendum bankareikningum frá árinu 2005 og er grunaður um að hafa skotið undan skattayfirvöldum árin 2010 til 2015.

Á fimmtudag féll dómur í Hæstarétti þess efnis að lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson megi ekki vera verjandi Júlíusar eins og hann hafði farið fram á. Ástæðan er sú að Héraðssaksóknari hyggst kalla Sigurð til skýrslugjafar í málinu og útilokar ekki að hann geti fengið stöðu sakbornings í málinu, eins og segir í dómnum.

Saka Júlíus um að sölsa undir sig ættarauðinn

Rannsókn Héraðssaksóknara hófst með kæru frá Skattrannsóknastjóra 5. janúar og snýr að því að Júlíus hafi ekki gert skattayfirvöldum grein fyrir fjármunum sem hann átti erlendis á árunum 2010 til 2015. Árið 2014 lágu þeir á reikningi félagsins Silwood Foundation hjá svissneska bankanum Julius Bär. Júlíus Vífill stofnaði Silwood Foundation á Panama það sama ár eins og fjallað var um í Kastljóssþætti um Panama-skjölin í apríl í fyrra.

Nokkur systkini Júlíusar, og aðrir erfingjar foreldra hans, hafa sakað hann og bróður hans um að hafa reynt að sölsa undir sig ættarauð foreldranna sem hafi verið geymdur á aflandsreikningum. Einnig hefur verið fjallað um það mál í Kastljósi og þar kom fram að upphæðirnar hlypu líklega á mörghundruð milljónum.

Hljóðupptaka af sáttafundi

Í lok mars fékk Skattrannsóknastjóri svo senda hljóðupptöku af sáttafundi nokkurra deiluaðilanna og lögmanna þeirra. Á fundinum voru meðal annars Júlíus og Sigurður og heyrast þeir þar ræða um fjármunina.

Upptakan, sem jafnframt var birt opinberlega í fjölmiðlum, kom nafnlaust inn á borð Skattrannsóknastjóra sem sendi hana áfram til Héraðssaksóknara. Það er á grunni þess sem fram kemur á upptökunni sem Héraðssaksóknari hyggst taka skýrslu af Sigurði í tengslum við málið og neitaði því að samþykkja skipun hans sem verjanda.

Mynd með færslu
Sigurður G. Guðjónsson Mynd: RÚV

Júlíus telur freklega brotið gegn sér

Júlíus mótmælti þeirri niðurstöðu Héraðssaksóknara harðlega og sagði að með henni væri freklega brotið gegn rétti hans til að velja sér verjanda. Hann sagði algjörlega óþarft að taka skýrslu af Sigurði vegna málsins, enda hefði hann ekkert komið að hans málefnum á árabilinu 2010 til 2015 þegar meint skattalagabrot eiga að hafa verið framin. Þá hafi þess ekki heldur verið getið neins staðar hvaða brot Sigurður eigi hugsanlega að hafa gerst sekur um.

Saksóknari sagði hins vegar að á upptökunni virtist sem þeir væru meðal annars að ræða um hvernig mætti koma fjármununum til systkina Júlíusar með þeim hætti að þeir yrðu sem minnst skattlagðir. Hann ítrekaði að þetta væru peningar sem grunur væri um að hefðu áður verið sviknir undan skatti og væru því afrakstur brots, að minnsta kosti að hluta. Peningaþvættishluti rannsóknarinnar snýr einmitt að því hvernig farið hefur verið með peningana eftir að þeir voru sviknir undan skatti, eins og grunur er um.

Héraðsdómari telur ástæðulaust að yfirheyra Sigurð

Héraðsdómarinn Lárentsínus Kristjánsson var að miklu leyti sammála Júlíusi og Sigurði í niðurstöðu sinni. „Verður ekki betur séð en að lögmaður sóknaraðila hafi á fundinum fyrst og fremst lagt áherslu á að skoða þyrfti ofan í kjölinn hvernig best væri að standa að slíkri millifærslu í skattalegu tilliti. Af endurritinu má ráða að með þessari áherslu hafi lögmaðurinn verið að gæta með réttmætum hætti hagsmuna sóknaraðila með sem bestu móti, eins og honum var skylt,“ segir í niðurstöðunni.

„Ekki hefur verið bent á önnur atvik í málinu sem gefa tilefni til þess að lögmaður sóknaraðila verði kallaður til skýrslugjafar,“ segir í dómsniðurstöðunni, en þrátt fyrir að dómaranum „þyki alls ekki blasa við hvað það er sem kallar á skýrslutöku af lögmanninum“ þá telji hann að það sé ekki sitt að meta það. Það sé undir saksóknaranum komið og þá kveði lög fortakslaust á um að ekki mega skipa hann verjanda í málinu. Það brjóti ekki gegn rétti Júlíusar til réttlátrar málsmeðferðar.

Ekki með öllu tilefnislaust, segir Hæstiréttur

Í dómi Hæstaréttar er ekki jafnafdráttarlausum efasemdum lýst um það hversu brýnt sé að taka skýrslu af Sigurði. Þar segir að úrskurðurinn um að meina Sigurði að taka að sér málsvörn Júlíusar sé staðfestur „enda liggur ekki fyrir að þau áform [að taka skýrslu af Sigurði] séu með öllu tilefnislaus“.

Hvorki Júlíus Vífill né Sigurður vildu tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.