Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Jónas Kristjánsson ritstjóri látinn

30.06.2018 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - RUV
Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri lést í gær, 78 ára að aldri. Hann starfaði í ýmsum fjölmiðlum, lengst af sem ritstjóri. Jónas var einn áhrifamesti maður í íslenskri fjölmiðlasögu seinni tíma og einn helsti hvatamaðurinn að því að hverfa frá flokksblaðakerfinu, sérstaklega með stofnun Dagblaðsins.

Jónas starfaði sem blaðamaður og fréttastjóri á Tímanum 1961-1964. Þá var hann ritstjóri Vísis í níu ár til ársins 1975. 

Jónas stofnaði Dagblaðið eftir átök í eigendahópi Vísis um ritstjórnarstefnu og leiðaraskrif Jónasar. Jónas var ritstjóri Dagblaðsins frá 1975-1981. Stofnun Dagblaðsins markaði þáttaskil sem útbreitt dagblað óháð stjórnmálaflokkum.

Þá starfaði Jónas einnig sem ritstjóri DV um tuttugu ára skeið á árunum 1981-2001. DV var í ritstjórnartíð Jónasar einn útbreiddasti fjölmiðill landsins. Hann var ritstjóri Fréttablaðsins árið 2002, útgáfustjóri Eiðfaxa ehf árin 2003-2005 og leiðarahöfundur DV 2003-2005. Þá tók hann aftur við sem ritstjóri DV 2005-2006. Hann starfaði einnig við kennslu í blaðamennsku við símennt Háskólans í Reykjavík 2006-2008. 

Jónas var fæddur í Reykjavík 5. febrúar 1940. Hann lauk Stúdentsprófi frá MR 1959 og BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1966. Hann starfaði sem formaður Blaðamannafélags Íslands og Íslandsnefndar International Press Institute. Jónas skrifaði fjölda bóka, einkum er snéru að ferðalögum og hestamennsku.

Kristín Halldórsdóttir, eiginkona hans og fyrrverandi alþingismaður lést fyrir tveimur árum. Þau láta eftir sig fjögur börn.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV