Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Jón Þór hættir á þingi

06.07.2015 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
„Svo framarlega sem ekki verður kallað á sumarþing er ég hættur á þingi. Það er tímabært fyrir mig að stíga til hliðar", segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sem hefur ákveðið að hætta þingmennsku eftir tvö ár á þingi.

Jón Þór er einn þriggja þingmanna Pírata sem náðu kjöri á þing 2013. Hann gaf það út á síðasta ári að hann myndi hætta þingmennsku eftir ár og Ásta Helgadóttir varaþingmaður taka sæti hans. Jón Þór stendur við stóru orðin og þrátt fyrir vaxandi fylgi Pírata í skoðanakönnunum heillar það ekki að halda áfram.

Vill gera verkefni sjálfbær

„Þá er einmitt enn betra að ég stigi til hliðar. Það sem hefur virkað best hjá mér er að koma verkefnum af stað og gera þau sjálfbær. Ef mér finnst þau nægilega merkileg og spennandi er ég í fjórða og fimmta gír. En þegar þau eru orðin sjálfbær dett ég niður um gír," segir Jón Þór, sem vill halda sig í grasrótinni. Þótt hann hætti þingmennsku er afskiptum hans af Pírötum og stjórnmálum hvergi lokið.

Jón Þór hyggur nú á vinnu við nokkurs konar leiðarvísi um stjórnmál. „Það er nóg af verkefnum framundan. Ég mun nýta tímann í sumar til að hugsa um þessa reynslu. Hausinn á mér er frjáls og ég ætla mér að setja saman leiðarvísi þar sem ég reyni að útskýra hvar völdin og ábyrgðin í samfélaginu og stjórnmálum liggja," segir Jón Þór. Efnið ætlar hann að gefa út í textaformi og á YouTube.

„Þetta verður efni sem vonandi allir geta nýtt sér, þingmenn Pírata sem og aðrir þingmenn, og þjóðin öll. Það er mikilvægt að grasrótin skilji hvar valdið liggur. Ég verð að vinna að þessu í sumar," segir Jón Þór, en mun ásamt því sinna malbikunarvinnu líkt og undanfarin ár.

Aðspurður um upplifun sína af þingmennsku undanfarin tvö ár segir Jón Þór hana hafa verið spennandi. „Það hefur fátt komið mér á óvart en það sem hefur snert mig hvað mest er hvað þingmenn eru tilbúnir að spila glannalega með heilbrigðiskerfið. Það hefur snert mig dýpst og á hvað neikvæðastan hátt."

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður