Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Jón Kalman og Sjón orðaðir við Nóbelsverðlaun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/EPA

Jón Kalman og Sjón orðaðir við Nóbelsverðlaun

04.10.2017 - 11:05

Höfundar

Sjón og Jón Kalman Stefánsson hafa rokið upp á listum veðbanka yfir rithöfunda sem þykja líklegir til að fá Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Sænska akademían kynnir hver fær verðlaunin á morgun.

Sænska ríkissjónvarpið greinir frá þessu, en samkvæmt sænskum veðbönkum eru Jón Kalman og Sjón í tíunda og ellefta sæti á listanum yfir líklegustu verðlaunahafa.

Jón Kalman segir í viðtali við sænska sjónvarpið að hann muni fjárfesta í viskíflösku og drekka sig fullan í góðum vinahópi fái hann verðlaunin. Jón Kalman hefur áður verið orðaður við verðlaunin, árið 2014, en þá fékk franski rithöfundurinn Patrick Modiano þau. Sjálfur vonar Jón að spænski rithöfundurinn Javier Marías fái verðlaunin en hann hefur lengi verið orðaður við þau.

Halldór Kiljan Laxness fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955. Gunnar Gunnarsson var tilnefndur til þeirra fjórum sinnum. Hann komst næst því að hljóta þau sama ár og Halldór fékk þau.

Bob Dylan fékk óvænt verðlaunin í fyrra. Sitt sýndist hverjum, á meðan sumir fögnuðu sökuðu aðrir akademíuna um dómgreindarbrest.

Fréttin hefur verið uppfærð.