„Líkaminn er smá aumur hér og þar,“ viðurkennir Jón í samtali við Síðdegisútvarpið nú tveimur dögum eftir herlegheitin. „Ég byrjaði að æfa í apríl. Við kona mín sátum og vorum að bíða eftir því að dóttir okkar fæddist. Ég sendi bara strax á Arnar Pétursson, sem er hlaupameistari Íslands. Hann leit á mig og sagði: „Þú ferð þetta á undir þremur tímum. Hérna er prógrammið.““
„Stundum fer maður bara að hugsa um lífið, en stundum er maður með tónlist í eyrunum,“ segir Jón um hvernig hann hleypur. „Oft hlusta ég líka á hlaðvörp.“ Hann hafi alltaf stefnt á að hlaupa undir þremur tímum og hlýtt fyrirmælum þjálfarans í einu og öllu, það skilaði honum fimmta sæti af Íslendingum og tímanum 2:54:48. „Í fyrra var þriðja sætið 2:57, þannig ef ég hefði hlaupið í fyrr hefði ég verið í þriðja sæti. En ég er himinlifandi með þetta allt saman, hafði aldrei hlaupið maraþon áður.“
Rætt var við Jón Jónsson í Síðdegisútvarpinu.