Jón Ársæll bótaskyldur vegna Paradísarheimtar

26.06.2019 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Kona sem var viðmælandi í einum þætti Paradísarheimtar, sjónvarpsþáttaraðar Jóns Ársæls Þórðarsonar sem sýnd var á RÚV í fyrra, hefur höfðað mál gegn honum og Ríkisútvarpinu. Bótaskylda Jóns Ársæls og RÚV gagnvart konunni hefur verið viðurkennd og er málið nú í sáttaferli. Þetta staðfestir Ólafur Valur Guðjónsson, lögmaður konunnar, í samtali við fréttastofu.

Ólafur Valur vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið eða kröfur konunnar. Þá vörðust Jón Ársæll og lögmaður RÚV allra fregna af málinu. Öll segja þau að það sé viðkvæmu stigi. Fyrirtaka fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Þrjár þáttaraðir af Paradísarheimt hafa verið gerðar; fyrsta um fólk með geðræan vanda, önnur um fanga og sú þriðja um fólk sem synt hefur á móti straumnum og gæti talist öðruvísi en fólk er flest. Í umræddum þætti, sem var í þáttaröðinni sem sneri að föngum,  ræddi Jón Ársæll við konuna sem þá var þrítug og dvaldi í fangelsinu að Sogni. Í þættinum sagði hún meðal annars frá erfiðum uppvaxtarárum og baráttu við fíkn. Þátturinn vakti athygli og umtal á sínum tíma líkt og margir aðrir þættir Paradísarheimtar. 

Viðtalið við þjóðernissinnann Sigríði Bryndísi Baldvinsdóttir hlaut til að mynda töluverða gagnrýni en í þættinum sagðist hún ekki kippa sér upp við það að vera kölluð nasisti. Í kjölfarið skapaðist umræða um það hvort yfirlýstur nasisti ætti erindi í fjölmiðla þar sem honum væri gefið færi á að viðra skoðanir sínar. Þættinum með Sigríði var frestað í tvígang. 

Þá sakaði Viðar Marel Magnússon Jón Ársæl um að brjóta gegn persónuverndarlögum. Viðar var í heimsókn hjá frænku sinni, sem var viðfangsefni eins þáttarins, þegar upptökur á þættinum áttu sér stað. Í þættinum sést Viðar sniffa gas en hann var auk þess nafngreindur og tekið var fram hver faðir hans væri. Viðar kvaðst hvorki hafa gefið leyfi fyrir því að nafn hans yrði notað né að upptökur af honum yrði gerðar opinberar. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi