Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jólamaturinn dýrastur í Iceland

19.12.2019 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verðkönnun sem ASÍ lét gera fyrr í vikunni leiðir í ljós að talsverður munur er á verði verslana. Sem dæmi er rúmlega 2.000 króna verðmunur á kílói af hangikjöti milli tveggja verslanna.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 75 tilvikum af 122 en Iceland oftast með hæsta verðið eða í 57 tilvikum. Þess ber þó að geta að lægsta verðið á kjöti dreifðist á margar verslanir.

67 prósenta munur á hangikjöti

Talsverður munur mældist í könnuninni á verði á úrbeinuðu hangilæri frá KEA. Lægst verðið var í Kjörbúðinni, 2.993 kr. en það hæsta hjá Iceland, 4.999 krónur og er það 67 prósentA verðmunur. Þá var allt að 130 prósenta munur á kílóverði af frosnum kalkúnabringum. Kílóið af kalkúnabringum var ódýrast í Nettó, 1.990 kr. en dýrast hjá Heimkaupum 4.578 kr. sem gerir 2.588 kr. verðmun.
Verð á konfekti var einnig mjög mismunandi eftir verslunum en allt að 82 prósent verðmunur var á 679 gr Quality Street konfekti. Lægsta verðið var hjá Bónus 1.098 kr. en það hæsta í Iceland 1.999 kr. en það gerir 901 kr. verðmun.

Verðmunurinn skilar sér fljótt

Verðmunurinn mældist oft slíkur að jafnvel þó að aðeins eru verslaðar fáar vörur gat verðmunurinn hlaupið á þúsundum króna. ASÍ tekur sem dæmi að ef keyptar eru fjórar algengar jólavörur, 2,5 kg hamborgarahryggur frá Kjarnafæði, fimmtán Kristjáns laufabrauðskökur, hátíðarsíld frá Ora og 2 kg. Quality Street konfekt dós er verðmunurinn 5.860 á milli Bónus þar sem verðið er lægst og Iceland þar sem verðið er hæst. 

Samanburðartöflu með könnuninni má sjá hér

ASÍ sá um framkvæmd könnunarinnar. Í könnuninni var hilluverð á 122 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup í Garðabæ, Kjörbúðinni Sandgerði, Super 1 Heimkaup.is og Netto.is. Lesa má nánar um könnunina hér