Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jökulsá á Fjöllum friðuð fyrir orkuvinnslu

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum á Norðausturlandi er fyrsta svæðið sem er friðað fyrir orkuvinnslu. Vatnasvið árinnar og áin sjálf suður af brúnni hjá Ásbyrgi verður friðlýst. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, staðfesti friðlýsinguna í dag við athöfn í Ásbyrgi. Hún er hluti af friðlýsingarátaki ráðherra.

Friðlýsingin er í samræmi við rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Með áætluninni voru ákveðnar virkjanahugmyndir teknar af borðinu og ákveðið að friða ákveðin svæði fyrir orkuvinnslu, segir ráðherra. Nú er þetta loks friðlýst, segir hann.

„Þetta er stórt skref í náttúruvernd og til þess að framfylgja líka þeim ákvörðunum sem Alþingi hefur tekið og við vitum öll að virkjunarmál á Íslandi hafa verið mjög umdeild þannig þetta er stór dagur að mínu mati," sagði Guðmundur Ingi í hádegisfréttum RÚV.

Hann segir að vonast sé til að hægt verði að ljúka friðlýsingu úr verndarflokki rammaáætlunar á þessu ári og í upphafi næsta árs. 

„Framhaldið er þannig að það eru tilbúin til friðlýsingar nokkur fleiri svæði sem að hafa með vatnsafl að gera og svo erum við líka byrjuð að setja í kynningu svæði þar sem um jarðvarma er að ræða," sagði Guðmundur Ingi.

Í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á vef Stjórnarráðsins segir að með friðlýsingunni sé Jökulsá á Fjöllum vernduð gegn orkuvinnslu en tillögur höfðu verið um Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. 

Samhliða friðlýsingunni í dag undirritaði ráðherra reglugerð um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi. Í lok júní var Herðubreið og Herðubreiðarlindum meðal annars bætt við Vatnajökulsþjóðgarð. Það er ásamt friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði liður í friðlýsingarátakinu. Þá hafa áform um fjölda annarra friðlýsinga verið kynnt. 

Í tilkynningunni segir að áin sé merkileg fyrir það hvernig vatnsafl hennar hafi sorfið og mótað Jökulsárgljúfur þar sem nokkrar af helstu perlum íslenskrar náttúru séu saman komnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands