Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jökullinn rýrnar um 280 milljarða tonna á ári

25.09.2019 - 17:00
Mynd:  / 
Á árunum 2006-2015 rýrnaði Grænlandsjökull árlega að meðaltali um 280 gígatonn. Þetta hefur áhrif á sjávarborð sem hefur hækkað meira en gert var ráð fyrir í eldri spám. Hér við land gæti hækkun yfirborðs sjávar numið einum metra út þessa öld. Það er líka búist við að flóðum, snjóflóðum og skriðuföllum muni fjölga á norðurslóðum vegna óstöðugra jarðlaga.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, þar sem fjallað er sérstaklega um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og freðhvolfið eða jökla, jökulbreiður, sífrera og í raun allt sem frýs.

Dauðans alvara

Hrafnhildur Hannesdóttir jöklafræðingur og Halldór Björnsson hópstjóri loftslagsrannsókna starfa bæði á Veðurstofu Íslands. 

-Það rignir yfir okkur skýrslum þar sem hver hryllingsmyndin af annarri er dregin upp. Þetta er dauðans alvara.

„Já þetta er vissulega dauðans alvara þó auðvitað sé mikilvægt að týna sér ekki í einhverjum hryllingi. En það er augljóst mál að það þarf bregðast við. Bæði með því að draga úr því tjóni sem þetta getur valdið og svo einfaldlega með því að draga úr losun sen náttúrulega það sem skiptir mestu máli fyrir framtíðina,“ segir Halldór.

-Þetta er bænakall um að það verði gert meira en þegar hefur verið ákveðið um minnkun losunar á gróðurhúsalofttegundum. 

„Já, vissulega. Eins og hefur komið fram í þessum skýrslum, og hefur verið rætt um, að þó að við myndum draga verulega úr losun núna þá er þetta tregða í kerfinu þannig að það mun taka áratugi að snúa þessu við,“ segir Hrafnhildur

-Er líklegt að gert verði meira?

„Já, ég held að það sé nokkuð augljóst. Afleiðingar loftslagsbreytinga sem taldar eru upp í skýrslunni og megnið af afleiðingunum sem menn hafa talið upp hafa hingað til gengið eftir að svo miklu leyti sem þær eru byrjaðar að rætast. Og það er nokkuð ljóst að þegar alvarleiki málsins blasir við öllum muni menn gera það sem þarf. Annað er óhjákvæmilegt,“ segir Halldór.

Hlýnunin á norðurslóðum tvöfalt hraðari

Í skýrslunni er sjónum beint að áhrifum loftslagsbreytinga á höfin og það sem kallað er freðhvolfið. Það nær til allra jökla, ósbreiða og sífrera eða þar sem frosts gætir.
Hlýnun á norðurskautssvæðinu hefur verið tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni á síðustu tveimur áratugum.  Hvaða áhrif er þetta og mun þetta hafa. 

„Þetta hefur náttúrlega mjög sýnileg áhrif á freðhvolfið og jöklar um allan heim eru að minnka og hörfa. Sjónum er auðvitað mest beint að þessum stóru jöklum, Grænlandsjökli og Suðurskautslandinu. Eins og kemur fram í skýrslunni er hækkun í heimshöfunum vegna bráðnunar jökla annars staðar álíka og Grænlandsjökull er að tapa,“ segir Hrafnhildur.

 

epaselect epa07844693 Vehicles ravaged by the floods are seen in Orihuela, Alicante, eastern Spain, 15 September 2019. A total of six people have died due to the 'gota fria' (cold drop) phenomenon in the Mediterranean coast in Spain.  EPA-EFE/MORELL
Myndin var tekin í Orehuela 15. september. Þar er mikil eyðilegging eftir flóðin.  Mynd: EPA
Flóð á Spáni

Náttúrhamfarir munu aukast

Í skýrslunni er varað við auknum náttúruhamförum; flóðum í ám, snjóflóðum og skriðuföllum vegna óstöðugra jarðlaga. Þetta muni hafa áhrif á innviði. Halldór bendir á að hér hafi orðið skriðuföll sem líklega megi rekja til þess að það er að hlýna í fjöllum.

„Rétta leiðin til að glíma við þetta er aðlögun. Að reyna að kortleggja hvar áhættan er mest og skipuleggja út frá því. Þessi skýrsla leggur mikla áherslu á að þetta sé ekki tapað spil. En það þurfi að nálgast aðlögun og viðbrögð með skipulögðum hætti,“ segir Halldór og nefnir hafið sem dæmi. Nauðsynlegt sé að bæta miklum aga í fiskveiðistjórnun vegna þess álags sem verði á vistkerfi hafsins. „Hér á landi þýðir það einfaldlega að við getum ekkert slakað á þeim aga sem við höfum verið að beita hingað til.“ 

Verði stórlega dregið úr losuninni á komandi áratugum er líklegt að hægja taki á rýrnun
sífrera og snjóhulu þegar fram í sækir, en hörfun margra jökla og ísbreiðanna á Grænlandi og
Suðurskautslandinu haldi áfram út öldina.

Halldór segir að það séu þrír kostir í stöðunni, að draga úr losun, að aðlagast eða að þjást. Sá tími sé löngu liðinn að hægt sé að velja eitthvað annað. Auðvitað vilji menn komast hjá þjáningu eins og mögulegt er. Það sé aðeins hægt að gera með því að draga eins skarpt úr losun og hægt er og aðlagast hinu.

Nánar er rætt við Hrafnhildi og Halldór í Speglinum. Hlusta má á viðtalið við þau í spilaranum hér að ofan.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV