Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Jökull, maður og myndavél

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

Jökull, maður og myndavél

01.02.2018 - 12:48

Höfundar

Þorvarður Árnason hefur verið forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði í rúman áratug. Á þessum tíma hefur hann ferðast um jökulheima Vatnajökuls, fangað útlit jöklanna og yfirbragð með myndavél sinni og þannig orðið sjónarvottur að áhrifum hnattrænna loftslagsbreytinga á þessum tímabili.

Eru jöklar stök náttúrufyrirbrigði líkt og fjall eða foss eða eru jöklar landslag, er ein þeirra spurninga sem Þorvarður veltir fyrir sér í fyrirlestri sínu. En spurningarnar eru sannarlega fleiri þegar jöklar eru annars vegar. Til að mynda sú aldagamla spurning þeirra sem beint hafa sjónum sínum að jöklum í gegnum tíðina: hvaða áhrif hafa jöklar á okkur sem manneskjur og hvers vegna hafa þeir þessi áhrif; hvaða merking býr í þessum hrifum? Á „öld klakabrennunnar,“ eins og Þorvarður orðar yfirstandandi tímaskeið hnattrænnar hlýnunar með tilheyrandi breytingum á jöklunum, verður meginspurningin hins vegar þessi: „Hvaða áhrif höfum við á jökla? Hvað verður um fegurðina, uppsprettu hrifanna og hvað verður um okkur ef að fegurðin hverfur?“

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Gímaldin. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

„Jöklar eru risastórir, þeir eru helkaldir, þeir eru vægðarlausir, þeir eru yfirþyrmandi, þeir eru magnþrungnir,“ segir Þorvarður Árnason og viðurkennir að það að hafa einn slíkan beinlínis í bakgarði skrifstofu sinnar geti leitt til óbilandi þarfar - og bilunar - að ná utan um þá síbreytilegu fegurð og ógn sem sífelldlega blasir við. Úr þessum aðstæðum varð fræðimaðurinn að ljósmyndara, veiðimanni, þess sem fyrir augu ber, ofurselt óafturkræfum breytingum.

Jöklar eru gerendur, þeir eru náttúruafl og því réttar að nálgast þá á „landslagsskalanum en sem nátturufyrirbæri [...] jöklar virðast kyrrstæðir eins og fjall, en þeir eru það ekki; þeir virðast vera úr föstu efni, en þeir eru það ekki; þeir virðast vera litlausir, en þeir eru það ekki.“ Jökullinn er með öðrum orðum ekki allur þar sem hann er séður.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Hoffellsjökull. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Aðdráttarafl jökla eins og Hoffellsjökuls, Fláajökuls og fleiri jökla í grennd í Höfn felst ekki síst í því tækifær sem þeir bjóða til lifunar. Þorvarður kýs að nota orðið „lifun“ yfir það sem algengara er að tala um sem „upplifun.“ Lifun gerir okkur „meira lifandi, við skynjum lífið í okkur sjálfum og þetta er að stórum hluta líkamleg skynjun [...] staddur í náttúrunni verður maðurinn meiri heild, hugsandi líkami, líkamlegur hugur,“ jafnvel þótt ganga um jökulheima feli oft í sér áhættu fyrir bæði líf og limi.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Þrúðmar Þrúðmarsson, hundur og Hoffellsjökull. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

„Lifun hins ægifagra birtir okkur djúpstæðustu tengsl mannsins við náttúruna,“ segir Þorvarður, „og í gegnum þessa lifun skynjum við náttúruna loksins eins og hún er sem og innsta kjarna okkar sjálfra sem fagurferðilegar verur.“ Þessari nálgun gefur Þorvarður yfirskriftina „hin helgu vé,“ sem segja má að sé leið listamannsins til tjáskipta við og um náttúruna. Svo er sú nálgun sem gefa mætti yfirskriftina „hið heilaga gral,“ sem felur í sér að „hin sanna náttúrusýn er ekki til,“ sem er leið fræðimannsins með sínum rannsóknum og skoðun, jafnvel afbyggingu.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Jökull, ís, vatn. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Manneskjan getur aldrei orðið eitt með náttúrunni,“ hún getur aldrei hætt að horfa á náttúruna sínum mennsku augum á grundvelli margbreytileika síns sem félagslegar verur, menningarlegar, pólitískar og svo framvegis. Þannig birtir „hin sanna, djúpa náttúrusýn okkur ekki náttúruna heldur langanir okkar og þrár á hverjum tíma [...] og það sem að við teljum okkur skynja í náttúrunni er í raun bara daufur endurómur þess sem við þráum að sjá [...] náttúran er daufdumb [...] þannig að við sjáum sjaldnast – eða aldrei – það sem við þráum að sjá. Við þrjóskumst samt við og sveipum þennan daufa enduróm upphafinni dulúð. Með öðrum orðum „hið ægifagra er sjónhverfing, tálsýn.“ Látum það þó ekki koma í veg fyrir að efla okkar „lýríska traust“ gagnvart náttúrunni sem líklega má leggja að jöfnu við trúna á hið góða í manninum, þrátt fyrir allt.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Sigríður og Árni, svell og ís. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Á tímum hnattrænnar hlýnunar verður að leita leiða á milli hinna helgu véa og hins heilaga grals, sáttar sem þó aldrei getur orðið annað en kvik og óróleg. „Við þurfum að opna okkur gagnvart náttúrunni, leyfa henni að koma til okkar en viðurkenna jafnframt að allt sem við segjum um náttúruna er sagt í ákveðnu samhengi, mennsku samhengi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Hoffellsjökull, desember 2007. Ljósmynd Þorvarður Árnason
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Hoffellsjökull febrúar 2008. Ljósmynd: Þorvarður Árnason
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Geitafell. Efri mynd 2008, neðri mynd 2013. Ljósmyndir: Þorvarður Árnason
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Hoffellslón úr þyrlu 2014. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Klakabrennan. Ljósmynd: Þorvarður Árnaso

 

Fegurðin blæðir úr jöklinum, hann er ekki eins tignarlegur núna og hann var [...] en hvers er fegurðin megnug andspænis eyðileggingu og dauða á hnattrænum skala? Lokaorð fyrirlesturs síns sækir Þorvarður Árnason náttúruheimspekingur til skáldkonunnar Steinunnar Sigurðardóttur: „Þrátt fyrir allt þá blakta jöklarnir enn og við höfum ennþá tíma til þess að gera eitthvað í málinu.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Skriðjöklar Vatnajökuls til suðurs séð frá Bakka í Höfn í Hornafirði. Ljósmynd: Þorvarður Árnason