Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Johnson og Trump mæra hvor annan

25.08.2019 - 08:51
Erlent · G7 · Stjórnmál
Mynd: EPA-EFE / PA POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sé rétti maðurinn til að tryggja útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Johnson óskaði Trump til hamingju með stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum en lýsti um leið yfir áhyggjum af tollastríði landsins við Kína.

ATrump og Johnson hittust í fyrsta skipti eftir að Johnson varð forsætisráðherra á fundi G7-ríkjanna í Frakklandi í morgun. Þeir snæddu saman morgunmat og þegar þeir mættu blaðamönnum á leið sinni til fundarins spurði forsetinn hvort menn vissu hver þetta væri og benti á Johnson. „Hann verður frábær forsætisráðherra.“ 

Trump hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á Johnson og studdi hann opinberlega fyrir leiðtogakjör Íhaldsflokksins í sumar.  

Þegar Johnson og Trump ræddu við blaðamenn eftir fundinn var Trump spurður hvort hann hefði gefið breska forsætisráðherranum einhver ráð varðandi Brexit. „Hann þarf engar ráðleggingar frá mér. Hann er rétti maðurinn í verkið.“  Hann hafi verið þeirrar skoðunar lengi þótt sú skoðun hafi ekki mælst vel fyrir hjá forvera Johnsons í starfi, Theresu May.  Trump sagði jafnframt að unnið væri að fríverslunarsamningi við Bretland, sennilega þeim stærsta í sögunni, og að hann yrði vonandi kláraður sem fyrst.

Johnson hafði fyrir fundinn hvatt Trump til að greiða götu breskra fyrirtækja sem ætluðu að sækja á bandarískan markað eftir Brexit. Hann  hrósaði Trump fyrir stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum og  sagði hana frábæra en lét í ljós áhyggjur sínar af tollastríði Bandaríkjanna og Kína. „Bretland hefur hagnast vel af frjálsum viðskiptum milli landa síðustu 200 ár.“  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV