Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til næstu fimm ára. Hún sótti ein um stöðuna.
Jóhanna Fjóla er hjúkrunarfræðingur og hefur starfað við HVE síðan stofnunin varð til 2010. Fyrst var hún framkvæmdastjóri hjúkrunar og rekstrar og verkefnisstjóri þróunar og gæðamála og svo settur forstjóri.
HVE veitir heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vesturlands sem nær til 15 sveitarfélaga frá Hvalfjarðarsveit til Reykhólahrepps og norður í Árneshrepp og Húnaþing Vestra. Stofnunin annast einnig starfsnám í heilbrigðisgreinum og starfar í tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum.