Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Joðskortur mælist í fyrsta sinn hér á landi

06.05.2019 - 22:27
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Joðskortur er í fyrsta sinn farinn að mælast á Íslandi vegna breytts mataræðis. Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði segir að bregðast þurfi strax við enda geti mikill joðskortur valdið þroskaskerðingu í börnum. 

Joð er næringarefni og skortur á því hefur helst áhrif á skjaldkirtilsvirkni. Helstu einkennin eru þreyta, aukin þyngd og aukin næmni fyrir kulda, svo fátt eitt sé nefnt. Joðskortur hefur lengi verið vandamál í nágrannaríkjum en aldrei mælst á Íslandi.

Í nýrri rannsókn Sólveigar Aðalsteinsdóttur sást hins vegar mælanlegur skortur. „Þessi nýja rannsókn sýnir að við erum bara ekki með góðan joðhag lengur. Það er fyrst og fremst vegna þess að bæði neysla á mjólkurvörum hefur dregist verulega saman og eins líka sjáum við minni fiskneyslu,“ segir Ingibjörg.

Mataræði Íslendinga er að breytast mikið á stuttum tíma en fyrir tíu árum mældist enginn joðskortur. Í rannsókn Sólveigar voru konur spurðar hvort að þær forðuðust mjólk eða fisk. „Sumar voru að gera það vegna þess að það er ofnæmi eða óþol til staðar og það er algjörlega eðlilegt og nauðsynlegt að gera það. En við sjáum að þessi hópur er lægri heldur en hinar sem nota mjólk samkvæmt ráðleggingum þannig það er alveg klárt að það þarf að gera eitthvað fyrir þennan hóp. Það eru því miður ekki margar uppsprettur þannig að meðan að er verið að ákveða hvernig við bregðumst við þessu sem þjóð þá myndi maður vilja mæla með bætiefnum, sérstaklega fyrir konum á barnsburðaraldri og konum sem eru óléttar að nota 150 míkrógrömm af joði ef það getur ekki notað fisk og mjólk samkvæmt ráðleggingum,“ segir Ingibjörg.

Nágrannaríki hafa mörg hver leyst þetta með því að joðbæta salt og í Danmörku er til dæmis skylt að joðbæta brauð. Ingibjörg segist ekki fullviss um að það sé rétta leiðin hér á landi. Nauðsynlegt sé þó að bregðast við strax. Gera þurfi nýjar fæðuráðleggingar frá Landlækni og mælingar á fæðu.  

Ingibjörg segir joðskortur geti verið mjög alvarlegur. Konur sem eru óléttar eru í sérstökum áhættuhópi. „Mjög alvarlegur joðskortur kemur fram í verulegri þroskaskerðingu og það er ekki það sem við erum að horfa á hér. Við erum að tala um mildari joðskort en vegna þessara niðurstaðna sem við sjáum utan úr heimi að það geti haft áhrif á að barnið nái ekki að læra eins hratt eða eins vel, af því við erum að tala um þroska, og þess vegna verðum við að bregðast við sem þjóð.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV