Jessica Biel berst gegn bólusetningum

13.06.2019 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Instagram
Myndir af bandarísku leikkonunni Jessica Biel, sem þekktust er fyrir leik sinn í kvikmyndum á borð við Illusionist, Texas Chainsaw Massacre og endurgerð Total Recall, birtust í gær á Instragram-síðu Robert F. Kennedy yngri, baráttumanns gegn bólusetningum.

Biel var í gær ásamt Kennedy á ríkisþingi í Kaliforníu og þau virðast hafa tekið saman við að þrýsta á þingið að samþykkja ekki frumvarp sem herða löggjöf um bólusetningar barna. Andstæðingar bólusetninga hafa barist hart gegn frumvarpinu og ríkisstjórinn Gavin Newsom hefur gagnrýnt það.

Börnum sem eru ekki bólusett í Kaliforníu hefur fjölgað undanfarin tvö ár og fyrir þinginu liggur nú frumvarp sem herðir skilyrði um undanþágu frá bólusetningum af læknisfræðilegum ástæðum. Foreldrar geta fengið undanþágu fyrir börn sín með læknisvottorði.

Segja lækna selja vottorð

Flutningsmenn frumvarpsins segja að læknar selji foreldrum læknisvottorð fyrir börn sem eiga engan rétt á slíku þegar engar læknisfræðilegar ástæður liggi að baki undantekningunum. Það hafi engin áhrif á börn sem sannarlega þurfi undanþágur frá reglum um bólusetningar.

Biel hefur aldrei tjáð sig opinberlega um bólusetningar en í samtali við Daily Beast sagði Kennedy yngri að hún væri ósátt við frumvarpið vegna vægðarleysis þess. Hún væri öflugur talsmaður málstaðar andstæðinga bólusetninga, sterk og vel að sér um málið. Hann vildi annars ekkert tjá sig um hvað þau Biel hefðu verið að gera í þinginu, nema að þau hefðu hitt 15 þingmenn sem bæði eru andstæðingar og stuðningsmenn frumvarpsins.

Talsmenn Biel og eiginmanns hennar Justin Timberlake svöruðu ekki ítrekuðum fyrirspurnum Daily Beast vegna málsins.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi