Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Jarðhitasvæði eru ofnýtt“

20.08.2015 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Prófessor í jarðfræði segir Hengilssvæðið og Reykjanesskagann ofnýtt sem jarðhitasvæði. Jarðhiti sé ekki endurnýjanlegur svo nokkru nemi. Of geyst hafi verið farið í virkjanir á Hellisheiði og Reykjanesi.

 

Gunnlaugur H. Jónsson eðlisfræðingur og fyrrum starfsmaður Orkustofnunar sagði í Speglinum í vikunni að verið væri að ofnýta jarðhitasvæði á Hengilssvæðinu og Reykjanesskaga. Fram kom í fréttum RÚV í vikunni að bora þarf eina holu á ári til að viðhalda afkastagetu Hellisheiðarvirkjunar.

Stefán Arnórsson prófessor í jarðfræði tekur undir orð Gunnlaugs. „Gufan úr holunum, eða rennslið á gufunni úr holunum, hefur minnkað með tímanum og það heldur áfram að minnka. Það hefur gerst vegna þess að svæðin eru ofnotuð, það er tekið meira upp en rennur að.“

Stefán segir að hvorki Orkuveita Reykjavíkur né HS Orka hafi næga gufu til að fullnýta virkjanirnar á Hellisheiði og Reykjanesi. Ástæðan sé að farið var í mjög stórar virkjanir strax í upphafi þó að þekkt sé að byggja eigi smátt fyrst og stækka þegar sést hvernig svæðið bregst við. „Ef menn fara í svona stóra áfanga, fyrstu áfanga í að virkja á nýjum svæðum þá eru menn að taka áhættu. Og nú er komið í ljós að þetta tókst ekki.“

Stefán segir að afkastageta háhitasvæðanna hafi verið metin með tölfræði áður en búið var að afla gagna um svæðin sjálf. Nauðsynlegt sé hins vegar að skoða svæðin. Í huga Stefáns á nýting á heitu vatni til húshitunar að hafa forgang umfram raforkuframleiðslu. „Það má ekki gleyma því, og það liggur nánast á borðinu, að jarðhiti er ekki endurnýjanleg orkulind sem neinu nemur. Hún er endanleg.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV