Jarðeigendur óánægðir með svör Vegagerðar

26.07.2019 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Hluti landeigenda Seljaness á Ströndum, þar sem umfangsmikil vegagerð er yfirvofandi vegna virkjunar Hvalár, fær lögfræðiálit í næstu viku og ákveður aðgerðir í samræmi við það. Þeir telja vegaframkvæmdir óheimilar í landi sínu. Vegagerðin er á öðru máli. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kolbrún Þóra Löve - RÚV
Jörðin Seljanes er merkt í ljósgrænum lit.

Hvalá, sem ætlunin er að virkja, rennur til sjávar í Ófeigsfirði. Lengstum var þar ekkert vegasamband en nú liggur þangað vegslóði úr Ingólfsfirði og liggur hann um jörðina Seljanes. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Hrafn Arngrímsson - RÚV
Seljanes.

Seljanes er nú eigu margra, meðal annars fólks í Mexíkó. Minnihluti landeigenda efast um að Vegagerðin hafi heimild til vegaframkvæmda þar. Þær, þ.e.a.s. veghald Ófeigsfjarðarvegar, hefur hún falið Vesturverki. Vesturverk hefur þegar hafist handa við að breikka veginn í tólf metra en er ekki komið að Seljaneslandinu. 

„Miðað við þær myndir og það myndefni, sem ég sá í gær, þá sýnist mér vera að það séu kannski u.þ.b. fimm kílómetrar þangað til vinnuvélarnar séu komnar að Seljaneslandinu. Mér sýnist þetta gangi nú á þessum eðlilega framkvæmdahraða þannig að ég búist við að það sé kannski einhver tæp vika þangað til þeir nálgist Seljaneslandið,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson formælandi minnihluta landeigenda.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Hrafn Arngrímsson - RÚV
Breikka má veginn í tólf metra.

Vegagerðin svaraði landeigendunum í fyrradag og segir veginn þjóðveg á forræði Vegagerðarinnar og að vegir í tölu þjóðvega, sem haldið hafi verið við af almannafé um áratugaskeið, hafi af dómstólum verið taldir tilheyra ríkinu þótt formleg skjalfest eignarheimild liggi ekki fyrir. 

„Þeir náttúrulega hafa ekkert í höndunum, hvorki samninga við hreppinn eða landeigendur og geta ekki vísað til þess hvenær þau hafi hafið starf þarna. Það eina sem þau segja samkvæmt svarinu, sem er náttúrulega opinbert, að þeir hafi komið þarna með 2,4 milljónir árið 2004 og alltaf verið gert athugasemdalaust og þeir hafi fyllt þarna í einhverjar holur. Og að mér vitanlega fór öll sú framkvæmd fram í landi hreppsins,“ segir Guðmundur Hrafn.

Og ekkert í Seljanesi?

„Og ekkert í Seljanesi, mér vitanlega, og Seljanesbændur hafa alla tíð haldið veginum við.“

Ertu eitthvað tilbúinn til þess að segja núna að þið munið ekki heimila vinnuvélunum þarna inn á svæðið?

„Við munum náttúrulega rýna í það lögfræðiálit sem við fáum afhent á mánudaginn til þess að gera okkur grein fyrir því hvaða heimildir við höfum til þess að bara athafna okkur gagnvart þá þessari vegagerð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Hrafn Arngrímsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Hrafn Arngrímsson - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi