Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Jarðakaup hafi viðgengist óáreitt

07.08.2019 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Formaður Bændasamtakanna segist leggja að jöfnu jarðakaup auðmanna, erlendra og innlendra. Mikilvægt sé að halda ræktarlandi í notkun til að framleiða matvæli til framtíðar. Jarðakaup hafi viðgengist óáreitt, engar reglur hafi gilt og þannig megi það ekki vera. Hún segir ekki hægt að skylda búskap á öllum jörðum en að ákveða verði hvernig hátta eigi jarðakaupum til frambúðar.

Guðrún S. Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands skrifaði greinina "Því fylgir ábyrgð á eiga land" á vef Bændablaðsins í lok júlí:

„Ég vil í fyrsta lagi leggja að jöfnu jarðakaup auðmanna, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir. Það er náttúrulega gríðarlega mikilvægt að við höldum ræktarlandi og landbúnaðarlandi í notkun af því að við þurfum bara að geta framleitt matvæli til framtíðar og við þurfum að hugsa þetta allt til framtíðar. Það eru ekki bara við sem að búum hérna í dag heldur eru þetta afkomendur okkar líka. 

Hún segir að málið sé flókið til dæmis séu jarðir ólíkar, land hendi misvel til ræktunar og staðsetning skipti máli. 

„Það er kannski ekki hægt að setja einfaldar reglur sem gilda yfir allt. Þannig að ég held að það þurfi að hafa skynsemina með að leiðarljósi og við þurfum virkilega að hugsa þetta, hvernig best sé að gera þetta.“

Það er kannski ekki hægt alls staðar á öllum jörðum að skylda búsetu eða búskap?

„Nei, ég að það sé í rauninni bara ekki framkvæmanlegt.“ 

Guðrún er bóndi í Svartárkoti innst í austanverðum Bárðardal, bærinn er syðstur allra bæja í Þingeyjarsýslu á Norðurlandi eystra. Hún segir að í Bárðardal séu óþarflega margar jarðir sem ekki sé búið á. Þær eru þó ekki í eigu auðmanna.  Í sama landshluta hefur breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe keypt tugi jarða í þeim tilgangi að vernda íslenska laxastofninn. 

„Þetta hefur bara verið að gerast óáreitt. Það hafa ekki verið neinar reglur eða neitt sérstakt í gildi. Og það er það sem má ekki vera. Ég held bara í svo mörgu þurfum við Íslendingar svona aðeins að setjast niður og bara, já, ókei, hvernig ætlum við sjá þetta til frambúðar, hvernig viljum við láta þetta þróast.“

Ríkisstjórnarfundur verður haldinn við Mývatn á morgun. Jarðakaup útlendinga verða á dagskrá að því er haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í Fréttablaðinu í morgun. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðrún S. Tryggvadóttir form. Bændasamtakann. Ljósmynd: Margrét Þóra Þórsdóttir.