Jar Jar Binks eldist ekki sérstaklega vel

Mynd með færslu
 Mynd: Lucasfilm - YouTube

Jar Jar Binks eldist ekki sérstaklega vel

25.10.2019 - 14:01
Jar Jar Binks er án efa ein umdeildasta kvikmyndapersóna allra tíma. Hann lítur dagsins ljós í fyrsta kafla Star Wars kvikmyndabálksins, The Phantom Menance.

Fyrsti kaflinn í Star Wars kvikmyndabálknum, The Phantom Menance, kom út árið 1999. Myndin er fyrsta myndin í öðrum þríleik bálksins en gerist í sögulegu samhengi á undan upphaflegu myndunum þremur. 

Myndin er mjög umdeild meðal aðdáenda en aðgangsmiðar og leikföng seldust eins og sjóðandi heitar lummur eftir útkomu hennar. Í fyrsta þætti nýjasta hlaðvarps RÚV núll, Hans Óli skaut fyrst, ræðir Geir Finnsson við Stefán Pettersson og Gabríelu Jónu Ólafsdóttur um myndina og aðal persónu hennar, Jar Jar Binks. 

„Jar Jar var uppáhalds karakterinn minn,“ segir Gabríela. Hún segir það vera augljóst að myndin var gerð með ungan aldurshóp í huga sem fór fyrir brjóstið á mörgum eldri aðdáendum. „Jar Jar Binks er ekki eins skemmtilegur og þegar hann var þegar maður var fimm ára.“

Í tilefni þess að níunda og síðasta kvikmyndin í Star Wars sögu Skywalker-fjölskyldunnar verður frumsýnd í desember sest stjörnustríðs nördinn Geir Finnsson niður með öðrum aðdáendum myndanna og kryfur þær í níu þátta hlaðvarpsseríu. Þú getur hlustað á fyrsta kafla hér og á Spotify en þættirnir verða bráðlega aðgengilegir á öllum helstu hlaðvarpsveitum.