Jákvætt viðhorf til tungumálsins mikilvægt

Mynd: RÚV / RÚV

Jákvætt viðhorf til tungumálsins mikilvægt

11.06.2018 - 08:29

Höfundar

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor í íslenskri málfræði segir að rannsóknir sýni fram á að í samfélögum þar sem tvö tungumál eru í gangi skipti viðhorf til tungumálsins miklu máli, sérstaklega meðal barna og unglinga. Sé vilji til þess að íslenska haldi sjó í baráttunni við enskuna verði að tryggja að ungmenni hafi jákvæð viðhorf til málsins og að hægt verði að nota íslensku og að hún sé notuð á öllum sviðum.

Eiríkur segir að í samræmdum prófum sé mikil áhersla lögð á utanbókarlærdóm, orðflokkagreiningu, rétt mál og rangt og fleira í þeim dúr. 
„Og þetta eru ekki atriði sem eru til þess fallin að skapa jákvætt viðhorf til tungumálsins. Það er verið að reyna að leiða krakkana í gildru dálítið og verið að kanna hvað þau kunna ekki, frekar en hvað þau kunna og þetta bara er ekki gott.“

Eiríkur segir dæmi um að ungmenni standi í þeirri trú að þau séu betri í ensku en í íslensku og byggi þá niðurstöðu á því að þau hafi fengið hærri einkunn í samræmda prófi í ensku en í íslensku. Þau átti sig ekki á muninum á móðurmáli og öðru máli. „Og þá halda þau að það þýði að þau séu betri í ensku en íslensku en það er náttúrlega misskilningur. Auðvitað eru þau miklu, miklu betri í íslensku, en það kemur ekki fram þarna,“ segir Eiríkur um samræmd próf. 

Eiríkur hefur bent á að  sumar spurningar í samræmdum prófum séu ósanngjarnar og of mikið hafi verið af beinum villum. Einnig sé of algengt að fleiri en einn möguleiki á krossaprófi geti verið réttur, þó einn kostur sé augljósastur. „En góðir nemendur, þeir gætu séð að stundum er annar möguleiki sem getur staðis. Þá fara þeir að velta fyrir sér, er það kannski þetta? Og þeir geta orðið óöryggir af því og það er ekki gott náttúrlega.“

Tengdar fréttir

Innlent

Telur samræmd próf draga úr áhuga á íslensku