Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jákvæð áhrif styttingar vinnuvikunnar

03.05.2019 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Styttri vinnuvika hefur ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur, samkvæmt niðurstöðum tólf mánaða tilraunaverkefnis ríkisins og BSRB á styttingu vinnuvikunnar. Upplifun starfsfólks á tilraunavinnustöðum verkefnisins var jákvæð og hafði jákvæð áhrif á líðan þeirra í vinnu og daglegu lífi að því er fram kemur í skýrslu félagsmálaráðuneytisins um niðurstöður verkefnisins eftir tólf mánaða tilraun.

Markmið tilraunarinnar var að kanna hvort stytting vinnuvikunnar um fjórar klukkustundir myndi leiða til gagnkvæms ávinnings starfsfólks og vinnustaða, samkvæmt tilkynningu á vef félagsmálaráðuneytisins. Þar er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra að hann vonist til þess að niðurstöðurnar gagnist við frekari skoðun á styttingu vinnuvikunnar. 

Fjórir vinnustaðir tóku þátt í verkefninu, Lögreglan á Vestfjörðum, Embætti ríkisskattstjóra, Útlendingastofnun og Þjóðskrá Íslands. Einnig voru fjórir vinnustaðir valdir í samanburðarhóp en starfsemi þeirra svipar til starfsemi hinna fjögurra vinnustaðanna. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV