Jafnvægi á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúðamarkaður á höfuðborgarsvæðinu er í jafnvægi samkvæmt tilkynningu frá Íbúðalánasjóði sem byggð er á tölum Þjóðskrár Íslands. Hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði segir að tölurnar gefi til kynna að ákveðið jafnvægi sé komið á fasteignamarkaðinn.

 

Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs kemur fram að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,2 prósent á milli mánaða en í fyrsta sinn síðan 2012 mælist smávægileg raunverðslækkun á milli ára. Verð á fjölbýli hækkar um 0,3 prósent á milli mánaða en verð á sérbýli lækkar um 0,5 prósent.

Íbúðaverð hefur undanfarin tvö ár fylgt almennri launaþróun eftir snarpar hækkanir frá því í lok árs 2016 og fram á mitt ár 2017.  3.404 kaupsamningum var þinglýst á fyrri hluta ársins sem er um fjögurra prósenta fækkun frá fyrra ári. 

Gefur vísbendingu um að jafnvægi sé að nást

Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segir að fasteignaverð hafi í raun fylgt öðrum efnahagsststærðum nokkuð vel eftir. „Samkvæmt þessari mælingu sem var birt í gær hjá Þjóðskrá er fasteignaverð að hækka ögn en raunverð stendur nokkurn veginn í stað,“ segir hann. Allt bendi til þess að komið sé ákveðið jafnvægi á fasteignamarkaðinn.

Íbúðir í fjölbýli hafi hækkað stöðugt síðastliðið ár en meiri sveiflur verið í verði á einbýli, parhúsum og raðhúsum. Guðmundur segir að það skýrist væntanlega af framboði og eftirspurn. „Það er nokkuð stöðugri eftirspurn eftir íbúðum í fjölbýli en sérbýli. Framboðið á fjölbýlisíbúðum hefur ekki sveiflast svo mikið.“

Enn þörf fyrir uppbyggingu

Spurður hvort hann telji að fasteignamatið, sem tekur gildi um áramót, eigi eftir að hafa mikil áhrif á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu segir Guðmundur að það sé erfitt að segja til um það. „Það er gott jafnvægi á fasteignamarkaðnum eins og er en við erum ekki að segja að hinn endanlegi stöðugleiki sé kominn,“ segir hann. Það er nokkuð ljóst að það er enn skortur á íbúðum inn á markaði, sérstaklega minni íbúðum. Fyrr í vetur hafi Íbúðalánasjóður metið að það væri 5.000-7.000 íbúða skortur um landið allt og það sé enn þá til staðar. „Það er þörf á uppbyggingu, núna sem endranær,“ segir Guðmundur. 

 

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi