Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jafnrétti, loftslagsvá og tollar á vín

24.08.2019 - 11:54
Erlent · G7
Mynd: EPA-EFE / EPA
Forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins segir G7 fund, sem fram fer í Frakklandi, erfiðan prófstein á samnstöðu leiðtoga hins frjálsa heims. Jafnréttismál, loftslagsvá, tollastríð og Brexit er meðal þess sem leiðtogar sjö stærstu iðnríkja heims ræða á fundi í dag.

„Þetta er enn einn G7 fundurinn sem verður erfiður prófsteinn á samnstöðu og samheldni leiðtoga hins frjálsa heims.“ 

Það er kannski ekki á bjartsýnu nótunum sem Donald Tusk, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins, hóf ávarp sitt í upphafi G7 fundar sem fram fer í Biarritz Frakklandi í dag. 

G7 stendur fyrir Group of seven, eða sjö manna hópur. Hópur sjö stærstu iðnríkja heims.

Þau voru reyndar átta, en Rússar hafa ekki fengið boðskort síðan þeir innlimuðu Krímskaga árið 2014.  Auk sjömenninganna hefur fulltrúi Evrópusambandsins tekið þátt í fundunum frá árinu 1977. 

Ríkin sjö bera ábyrgð á 40% vergrar þjóðarframleiðslu í heiminum og í löndunum sjö búa tíu prósent jarðarbúa. 

Fundir þjóðarleiðtoganna fara fram reglulega en viljayfirlýsingar þeirra að fundi loknum eru ekki bindandi, eingöngu ráðgefandi um hvaða leið eigi að fara. 

„Enginn græðir á tollastríði“

Og það er eitt og annað á stefnuskránni í dag, jafnréttismál og aðgerðir í loftslagsmálum þess á meðal. Brexit verður sömuleiðis til umræðu, á fyrsta G7 fundi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.

Og svo tollamál. Til fundarins mætir meðal annarra Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sem í gær bað bandarísk fyrirtæki að hætta allri framleiðslu í Kína. Við munum vinna þennan slag við Kínverja, við setjum háa verndartolla á vörur frá þeim, sagði forsetinn í gærkvöld á leið sinni til Frakklands. 

Trump hefur einnig hótað að hækka skatta á frönsk vín, ákvörðun sem verður ekki tekið þegjandi hjá gestgjöfum fundarins í dag. 

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í ávarpi nú rétt fyrir hádegi að enginn græði á tollastríði. 

Skógareldarnir í Amazon regnskóginum verða sömuleiðis til umræðu. Margir þjóðarleiðtoganna sjö hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mála þar og mótmælendur sem mættir eru til Biarritz leggja sömuleiðis hart að sjömenningunum að láta sig málið varða.