Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jafnræði með leiðtogunum í lokakappræðum

07.12.2019 - 01:32
Mynd: EPA-EFE / BBC
Þeir Boris Johnson og Jeremy Corbyn skiptust á skotum í síðustu kappræðum sínum fyrir bresku þingkosningarnar í næstu viku. Johnson gagnrýndi andstæðing sinn ítrekað fyrir að gefa ekki upp afstöðu sína um Brexit, en Corbyn sagði forsætisráðherrann vera á leið úr Evrópusambandinu án áætlunar um framhaldið.

Forsætisráðherrann og leiðtogi Íhaldsflokksins, Johnson, sagði flokk sinn með frábæra áætlun um að keyra Brexit í gegn. Þar átti hann við samning sem hann gerði við leiðtoga Evrópusambandsins í október, sem var svo felldur af breska þinginu. Johnson spurði Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, hvernig hann ætli sér eiginlega að ná betri samningi um Brexit ef hann hafi ekki einu sinni sjálfur trú á útgöngunni. Corbyn hefur sagst ætla að vera hlutlaus í nýjum kosningum um Brexit, sem hann vill halda innan hálfs árs verði hann forsætisráðherra.

Íhaldsflokkurinn hefur enn dágott forskot á Verkamannaflokkinn í könnunum. Corbyn þurfti því á góðri frammistöðu að halda í kvöld, en samkvæmt könnun sem gerð var af YouGov á meðan kappræðunum stóð var nokkuð jafnræði með leiðtogunum. Fleiri kváðust treysta Corbyn en Johnson, og sögðu hann í betri tengslum við almenning. Johnson mældist hins vegar viðkunnalegri og vera líklegri til að taka sig betur út sem forsætisráðherra. 

Kosningarnar á fimmtudag verða þær þriðju á innan við fimm árum. Johnson boðaði til þeirra eftir að hafa mistekist að koma útgöngusamningi sínum í gegnum þingið.

Tveir fyrrverandi leiðtogar létu til sín taka í gær, þeir Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, og John Major, sem var forsætisráðherra á undan Blair og leiðtogi Íhaldsflokksins. Þeir töluðu báðir fyrir því að Bretar láti atkvæði sín falla á þann veg að hægt verði að boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Báðir vilja þeir Bretland áfram innan Evrópusambandsins.