Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Jafnræði, eining og barna- og fjölskyldustarf

24.03.2012 - 13:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Leggja þarf meiri áherslu á jafnræði og einingu innan kirkjunnar og barna- og fjölskyldustarf. Þetta segir prestarnir tveir sem keppa um að verða næsti biskup Íslands.

Jafnræði og eining

Agnes M. Sigurðardóttir, sóknarprestur í Bolungarvík, hlaut flest atkvæði í kjöri um nýjan biskup þjóðkirkjunnar eða 27,5 prósent.  Þar sem enginn hlaut meirihluta atkvæða fer önnur umferð kosninganna fram í apríl. Agnes segir að nái hún kjöri hyggist hún beita sér fyrir því að koma á jafnræði, að sýna umhyggju og að þeir sem starfa innan kirkjunnar vinni saman og finni þannig að þeir eru einn hópur sem stefnir að sama marki.

Ennfremur segir Agnes: „Ég myndi beita mér fyrir því að koma ýmsum hlutum í lag, sem kannski hafa ekki verið í nógu góðu lagi, bæði inn á við í kirkjunni og einnig gagnvart því sem snýr út á við, gagnvart þeim sem tilheyra kirkjunni úti í söfnuðunum.“

Barna- og fjölskyldustarf

Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, hlaut næst flest atkvæði eða rúmlega 25 prósent. Um sínar áherslur segir hann:

„Ég held að ég byrji á því að kalla barnafræðara kirkjunnar til samstarfs. Þjóðkirkjan þarf að efla mjög alla þjónustu við fjölskyldurnar og þarf að efla barnastarfið í kirkjunni. Þjóðkirkja er þjónustuaðili við allt fólk og ekki síst börnin því þau eru framtíð kirkjunnar. Og það þarf að stórefla barna- og fjölskyldutengda starfið. Kirkjan þarf að styðja heimilin í uppeldisstarfinu og kirkjan hefur grenndarskyldu líka.“