Jafnmikið keypt af flugeldum en minni loftmengun

01.01.2020 - 19:11
Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
Svifryksmengun, af völdum flugelda á höfuðborgarsvæðinu, var á fyrstu klukkustund ársins einn tíundi af því sem hún varð í froststillu fyrir tveimur árum. Sérfræðingur í loftgæðum þakkar það roki og rigningu. Ástæðan er alla vega ekki minnkandi flugeldakaup landsmanna því salan virðist vera jafnmikil og fyrir ári.

Þótt flugeldar næturinnar væru fallegir voru þeir ekki öllum skaðlausir. En hvernig var mengunin á nýársnótt?

„Kannski eins og við var að búast út af veðri þá var það talsvert minna en hefur verið síðustu tvö ár,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV

Í hitteðfyrra fór svifryksmengun í Dalsmára í Kópavogi yfir þrjú þúsund og sex hundruð míkrógrömm á rúmmetra á fyrstu klukkustund ársins. Helmingi minni mengun var við Grensásveg í Reykjavík. Mun minni mengun var í fyrra eða um eitt þúsund míkrógrömm. En núna í ár var hún minna en einn tíu prósent af menguninni fyrir tveimur árum.

Og ekki eru það minnkandi flugeldakaup sem skýra það því samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg virðist salan fyrir þessi áramót vera svipuð og fyrir ári.

„Það er fyrst og fremst veðrið sem ræður því hvað þetta nær að safnast upp. Það var eiginlega engin uppsöfnun. Það voru 4-5 metrar á sekúndu, jafnvel meira. Þannig að þetta þynntist jafnóðum, færðist burtu, þynntist út,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af því svifryki sem rignir ofan í jarðveg. Mest af því séu óskaðleg efni eða lítið skaðleg efni.  Það sem fólk andi að sér sé mun meira áhyggjuefni. Stærstur hluti þess, níutíu prósent, er mjög fínt ryk.

„Það er brennisteinsríkt, kolefnisríkt. Þannig að það er mjög óæskilegt að vera að anda þessu að sér lengi, sérstaklega fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir. Fólk með astma, öndunarfærasjúkdóma. Svo náttúrulega líka stórir viðkvæmir hópar eins og öll börn og eldri borgarar,“ segir Þorsteinn.