Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jafngildi átta Þingvallavatna hefur horfið

06.05.2019 - 19:27
Mynd: Veðurstofa Íslands / Veðurstofa Íslands
Jöklar á Íslandi hafa minnkað um sem nemur flatarmáli átta Þingvallavatna á átján árum. Þetta er mesta einstaka breyting sem hefur orðið á íslensku landslagi á tímabilinu.

Landmælingar Íslands taka þátt í samevrópsku landgerðarverkefni, Corine, sem 39 Evrópulönd taka þátt í. Verkefnið felur það í sér að kortleggja breytingar á landinu á sex ára fresti. Nýverið kynnti stofnunin nokkrar niðurstöður eftir mælingar ársins 2018. Og óhætt er að segja að þær séu nokkuð sláandi þegar kemur að jöklum. 

„Við höfum séð mjög miklar breytingar á jöklunum,“ segir Kolbeinn Árnason, sérfræðingur hjá Landmælingum Íslands. „Mestu breytingarnar eru á skriðjöklum, sérstaklega skriðjöklum Vatnajökuls, bæði að norðan- og sunnanverðu.“

Í myndskeiðinu hér að ofan má til dæmis sjá þær miklu breytingar sem urðu á Síðujökli í suðuvesturhluta Vatnajökuls frá árinu 2000 til ársins 2018, en að meðaltali hefur hann hopað um 70 metra á ári. Þá má einnig sjá þær breytingar sem urðu á Snæfellsjökli og Vatnajökli í heild frá árinu 1984 til 2018.

647 ferkílómetrar horfnir

Breytingarnar sem Landmælingar skoða í verkefninu eru af 33 ólíkum tegundum.

Er breytingin á jöklunum meiri en önnur breyting á íslensku landslagi?

„Þetta er mesta landgerðabreyting sem við mælum á Íslandi í þessu verkefni okkar, Corine. Næstmesta breytingin er náttúrulega aukning á ógrónu landi sem kemur undan jökulísnum þegar hann hörvar,“ segir Kolbeinn.

Frá 2012 til 2018 minnkaði samanlagt flatarmál jökla á Íslandi um 215 ferkílómetra, en frá árinu 2000 hafa þeir minnkað um 647 ferkílómetra.

„Þetta jafnast á við áttfalt flatarmál Þingvallavatns. Þetta er eiginlega hálft Þingvallavatn á ári á seinustu 18 árum,“ segir Kolbeinn.