Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jafnaðarmaður nýr forseti Panama

06.05.2019 - 06:57
epa07550336 Presidential candidate Laurentino Cortizo (R) celebrates with his wife Yasmin de Cortizo (L) after hearing the results of the elections in Panama City, Panama, 05 May 2019. Former Minister Laurentino Cortizo, of the opposition and social democratic Democratic Revolutionary Party (PRD), won on Sunday the presidential elections in Panama with 33 percent of the votes counted more than 92 percent of the tables, announced the Electoral Tribunal.  EPA-EFE/BIENVENIDO VELASCO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfirkjörstjórn í Panama lýsti jafnaðarmanninn Laurentino „Nito" Cortizo réttkjörinn forseta landsins seint í gærkvöld, en afar litlu munaði á honum og hægrimanninum Romulo Roux, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmanni Lýðræðisflokksins. Þegar búið var að telja atkvæði frá ríflega 92 prósentum allra kjörstaða reyndist Cortizo hafa fengið 33,08 prósent þeirra en Roux 31,06 prósent.

Formaður kjörstjórnar sagði þetta þýða að útilokað væri að Roux tæki fram úr Cortizo úr þessu, jafnvel þótt einungis munaði 40.000 atkvæðum á frambjóðendunum tveimur.

Óháði frambjóðandinn Ricardo Lombana varð þriðji, fékk 19,5 prósent atkvæða. Ólíkt því sem tíðkast í mörgum öðrum ríkjum Mið- og Suðurameríku þarf ekki að kjósa milli tveggja efstu í annarri umferð, þótt enginn fái meirihluta atkvæða. Forseti má hins vegar ekki sitja lengur en eitt fimm ára kjörtímabil.

Spillingarmál efst á baugi

Spillingarmál voru í brennidepli í kosningabaráttunni, en Panama hefur orð á sér fyrir að vera ein af nokkru helstu miðstöðvum peningaþvættis í heiminum og gott skjól fyrir skattsvikara að auki og er skemmst að minnast hinna svokölluðu Panamaskjala í því sambandi. Þá viðurkenndu forsvarsmenn brasilíska byggingarisans Odebrecht nýverið að hafa greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum landsins 59 milljónir Bandaríkjadala í mútur á árunum 2010 - 2014, til að tryggja sér stór verkefni á vegum hins opinbera.

Fyrrverandi landbúnaðarráðherra

Cortizo er 66 ára gamall og fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Í kosningabaráttunni lagði hann megináherslu á fyrirheit sín um að „bjarga og breyta Panama til hins betra“ og skapa sér og þjóð sinni orðstír, óflekkaðan af spillingu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV