Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ítalía með næst flest smit í heiminum

08.03.2020 - 19:58
Mynd: EPA-EFE / ANSA
Fleiri en 7.300 smit hafa nú greinst á Ítalíu, en aðeins í Kína hafa greinst fleiri smit í heiminum. Strangt ferðabann er nú í gildi á nokkrum svæðum á Norður-Ítalíu og um sextán milljónir verða þar í sóttkví fram í byrjun apríl. Það er um fjórðungur ítölsku þjóðarinnar.

Tilfellum hefur fjölgað hratt á Ítalíu og fleiri en 350 látist sökum COVID-19 veirunnar þar í landi. Í nótt var samþykkt tilskipun ríkisstjórnar Giuseppe Conte um að íbúar á nokkrum svæðum á Norður-Ítalíu yrðu nú í sóttkví til 3. apríl. Þetta nær til um 16 milljóna Ítala.  Tilskipun stjórnvalda kveður sömuleiðis á um ferðabann.

Tilskipunin nær yfir allt Langbarðaland og tíu svæði og borgir til viðbótar í Emilía-Rómanja og Venetó-héraði á Norður-Ítalíu. Þeirra á meðal eru borgirnar Milano, Feneyjar, Rimini og Parma, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hrósaði ítölsku ríkisstjórninni fyrir ákvörðunina, sagði hana sýna ábyrgð og fórnfýsi.

Og veiran hefur áhrif víðar.  Í Íran hafa hátt í sjö þúsund smitast undanfarna daga og vikur og smit hefur greinst í öllum héruðum landsins. Írönsk stjórnvöld hafa ákveðið að taka fyrir allar flugferðir til og frá Evrópu í bili.

Í New York ríki í Bandaríkjunum hafa 76 verið greind með veiruna. Einn þeirra hafði nokkrum sinnum farið smitaður um aðallestarstöðina í New York þar sem hundruð þúsunda fara um á degi hverjum. 

Læknisþjónusta í gegnum netið hefur færst mikið í vöxt í Kína, þar sem langflest smit hafa greinst. Þegar útbreiðsla veirunnar stóð sem hæst í Kína var komið upp spítölum á methraða til að annast sjúlkinga. Starfsemi hefur nú verið hætt á einum þeirra, þar sem færri smit greinast nú í Wuhan-héraði á degi hverjum en áður. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV