Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íslenskukennslan fær falleinkunn

08.05.2019 - 17:00
Mynd: RÚV / RÚV
Um 60% innflytjenda eru óánægð með þá íslenskukennslu sem er í boði hér á landi, samkvæmt nýrri könnun. Lítil fylgni er milli þess hversu vel innflytjendur telja sig geta talað íslensku og hversu mörg íslenskunámskeið þeir hafa sótt. Nærri helmingur innflytjenda telur íslenskukunnáttu sína slaka.

Þáttur í rannsóknarverkefni

Þetta kemur fram könnunni How is your life in Iceland sem er hluti af rannsóknarverkefninu Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi. Háskólinn á Akureyri stýrir verkefninu sem var hleypt af stokkunum í ársbyrjun í fyrra. Fleiri koma að því, Háskóli Íslands og háskólarnir í Tromsø, Lúxemborg og Lapplandi. Yfir 2.200 manns á aldrinum 18 til 80 ára tóku þátt í könnuninni, eða um 5% innflytjenda á Íslandi. Svarendur eru úr öllum landshlutum. Konur voru í meirihluta og um 70% höfðu búið hér á landi í þrjú ár eða lengur.

Konur ná betri tökum á málinu

Háskólinn á Akureyri hefur nú birt niðurstöður sem lúta að íslenskukunnáttu innflytjenda og viðhorfum þeirra til kennslu eða íslenskunámskeiða sem eru í boði. Í ljós kemur að  fimmtungur hefur ekki farið á námskeið en 80% segjast hafa sótt námskeið. Flestir, eða helmingurinn, eitt til þrjú námskeið.

46% töldu sig frekar slök í íslensku eða töluðu hana ekki. 9% sögðust vera altalandi á íslensku og fimmtungur taldi kunnáttu sína í málinu frekar góða. Fjórðungur taldi kunnáttuna hvorki góða né slaka. Almennt telja konur sig hafa náð betri tökum á málinu en karlar. 18 prósent karla segjast ekki tala íslensku.

Fram kemur að tæplega 60 af hundraði eru mjög eða frekar ánægð með aðgengi að íslenskunámskeiðum í sinni heimabyggð. 20 af hundraði hvorki né og 20% frekar eða mjög óánægð.

Hlutföllin snúast hins vegar við þegar spurt er um mat á gæðum námskeiðanna. 25% segjast vera ánægð með kennsluna en 59% segjast hins vegar vera  frekar eða mjög óánægð. Athygli vekur að ekki er mikill munur, hvorki á ánægjunni né óánægjunni, eftir landshlutum. Þá vekur líka athygli að lítil fylgni er milli þess hversu vel þátttakendur telja sig geta talað íslensku og hversu mörg íslenskunámskeið þeir hafa sótt.

Eitthvað þarf að breytast

Markus Meckl, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, hafði umsjón með könnuninni. Lara Wilhelmine Hoffmann, doktorsnemi í félagsfræði, vinnur við verkefnið. Hún segir að þessar niðurstöður komi á óvart.

  „Já, það kemur á óvart vegna þess að við vitum það að innflytjendur á Íslandi langar að læra íslensku. Margir sækja námskeið en eru óánægðir með þau. Já, þetta kemur á óvart og ljóst að það þarf eitthvað að breytast,“ segir Lara.

Mynd með færslu
 Mynd: Lara Hoffmann
Lara Wilhelmine Hoffmann

Ókeypis í Noregi og Svíþjóð

En kunna skýrsluhöfundar skýringar á því hvers vegna svo margir innflytjendur eru óánægðir með kennsluna. Lara segir að í framhaldinu verði það kannað og reynt að fá svör við því. Ein skýring gæti verið menntun kennara.

„ Það er ekki til nám fyrir þá sem vilja kenna útlendingum íslensku,“ segir Lara.

Hún segir að flestir kennarar sem kenna innflytjendum íslensku sé menntaðir sem íslenskukennarar fyrir Íslendinga. Lara segir að æskilegt væri að koma á fót háskólanámi í íslenskukennslu fyrir útlendinga. Hún bendir líka á að við getum lært af öðrum löndum eins og til dæmis Noregi og Þýskalandi sem hafa  mun lengri reynslu af nýbúum en Ísland.

„Tungumálanám til dæmis í Noregi og Svíþjóð er ókeypis fyrir fólk sem vill búa í þessum löndum. Á Íslandi þarf að greiða fyrir námskeiðin,“ segir Lara

Hún bendir líka á að í könnuninni komi fram að mjög lítil tengsl séu milli tungumálakunnáttu útlendinga og þess hve mörg íslenskunámskeið þeir hafa sótt.

„Við vitum ekki ennþá hvernig þeir sem tala góða íslensku lærðu málið. Þeir hafa  hugsanlega lært það í vinnunni. Íslenskunámskeiðin eru ekki eina leiðin til að læra íslensku,“ segir Lara.

Kemur á óvart 

En hver eru viðbrögð  þeirra sem kenna innflytjendum íslensku. Eyjólfur Sturlaugsson er framkvæmdastjóri fræðslunets símenntunar á Suðurlandi og stjórnarmaður samtaka símenntunarmiðstöðva, Kvasis. Kemur það honum á óvart hve margir innflytjendur eru óánægðir með kennsluna?  Hann segir að niðurstaðan komi frekar á óvart. Fræðslumiðstöðvarnar sé flestar með sitt eigið gæðakerfi

 „Þær meta sjálfar hvernig fólki finnst inntak námskeiðanna og líka til hvers það getur notað þau. Ég held að árangurinn hafi yfirleitt mælst góður. Þannig að þessar tvær niðurstöður eru mótsagnakenndar,“ segir Eyjólfur sem hefur ekki skýringu á þessu. Hann segir að þetta séu nýjar upplýsingar sem verði að taka mark á. Mikilvægt sé að greina það sem hægt er að bæta.

Eyjólfur tekur undir að þörf sé á aukinni sérhæfingu á þessu sviði.

„Þó að stöðvarnar séu að nota menntaða kennara þá er sjálfsagt aðeins lítill hluti þeirra með mikla sérhæfingu í að kenna fullorðnu fólki af erlendum uppruna,“ segir Eyjólfur.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV