Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslenskt listafólk í stafrænu leikhúsi Bjarkar

Mynd: Santiago Felipe / Björk Guðmundsdóttir

Íslenskt listafólk í stafrænu leikhúsi Bjarkar

21.05.2019 - 14:04

Höfundar

Cornucopia, stórtónleikar Bjarkar í listamiðstöðinni The Shed í New York hafa vakið mikla athygli og fengið lofsamlega dóma. Fjölmargir íslenskir tónlistarmenn taka þátt í tónleikunum, svo sem Hamrahlíðarkórinn og flautuseptettinn Viibra.

Björk heldur alls átta tónleika í hinni nýju og framúrstefnulegu listamiðstöð The Shed. Hún hefur lýst þessu sem stafrænu leikhúsi, þar sem gerðar eru miklar tilraunir með hljóð og mynd. Hamrahlíðarkórinn leikur hér stórt hlutverk á tónleikunum en hann söng inn á plötu hennar Útópíu fyrir tveimur árum.  „Í rauninni fór bara boltinn að rúlla eftir þa og núna í vor fengum við þær fréttir að okkur væri boðið að koma hingað og syngja með henni í The Shed, þessu glæsilega húsi. Við fáum bæði að syngja okkar eigin lög og svo fáum við líka að syngja lög eftir Björk í útsetningum fyrir kór,“ segir Jakob van Oosterhout, félagi í Hamrahlíðarkórnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Loftslagsbreytingar eru gegnumgangandi þema á tónleikunum, í lok þeirra kemur til dæmis myndband með yfirlýsingu frá Gretu Thunberg. „Við sem unga kynslóðin erum í raun fulltrúar fyrir komandi framtíð. Þetta er svona samstarf milli kynslóða.“ 

Nýjasta tækni á öllum sviðum

Bergur Þórisson er hljómsveitarstjóri Bjarkar. „Mitt hlutverk er að taka hugmyndir Bjarkar og músíkina sem við erum að vinna með og útfæra það í einhvern nýjan búning og fyrir nýtt sett af tónlistarmönnum.“ Á tónleikunum er nýjustu tækni á öllum sviðum blandað saman.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bergur Þórisson.

„Það er hljóðkerfi sem fer allan hringinn kringum salinn, þannig að hljóð koma úr öllum áttum, það eru ótrúlega flottar myndvarpanir í alls konar þrívídd og búið að gera rosalegt myndefni fyrir þetta. Á sviðinu er svo líka bergmálsklefi, eins konar kapella sem Björk fer inn í og syngur. Þetta er alveg magnað þegar þetta er allt komið saman.“ 

Viibra út fyrir þægindarammann

Flautuseptettinn Viibra, sem lék á Útópíu, kemur einnig fram á tónleikunum.„Alvöru æfingar hófust í janúar og svo erum við búnar að vera í stífum dansæfingum í svona tvo eða þrjá mánuði. Við erum svolítið að stíga út fyrir okkar þægindaramma og út úr því verður til eitthvað alveg nýtt,“ segir Berglind María Tómasdóttir, félagi í Viibra. Hún segir boðskap tónleikanna mjög sterkan. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hluti af flautuseptettinum Viibru.

„Björk hefur blandað sér í umræðuna um umhverfismál til fjölda ára, við þekkjum það vel á Íslandi, og það er komið mjög mikið inn á það í þessari sýningu, bæði í gegnum boðskapinn sem er hægt að lesa úr lögunum en líka bókstaflega gegnum ávörp sem eru flutt á sýningunni. Það er mikil von í sýningunni og tónleikunum og þessari nálgun.“

Fjallað var um tónleika Bjarkar í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Santiago Felipe - Björk Guðmundsdóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Santiago Felipe - Björk Guðmundsdóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Santiago Felipe - Björk Guðmundsdóttir