Íslenskir nemendur erlendis flykkjast heim

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Íslenskir nemendur erlendis flykkjast heim

17.03.2020 - 13:50
Fjölmargir íslenskir nemendur sem stunda nám við erlenda skóla hafa tekið þá ákvörðun um að koma heim vegna þess óvissuástands sem skapast hefur víða vegna Covid-19 faraldursins. Við ræddum við tvo nemendur sem eru nú á heimleið.

Tómas Geir Howser Harðarson stundar leiklistarnám við Guildford School of Acting í Bretlandi. Hann ákvað í hvelli að fljúga heim til Íslands í dag vegna þeirrar óvissu sem ríkir í landinu um þessar mundir. „Maður veit ekki hvort það sé ímyndun hjá fólki en margir í skólanum voru farnir að finna fyrir einkennum í gær,“ segir Tómas en hann er búsettur á skólasvæðinu ásamt fjölmörgum öðrum nemendum. Enn hefur þó ekkert staðfest smit komið upp.

Í næstu viku verður kennsla augnliti til augnlitis bönnuð í Bretlandi og skólar loka, sem er flókið fyrir nemendur í leiklistarnámi. Einn kennari hjá Tómasi er nú þegar í sjálfskipaðri sóttkví og hefur verið með kennslu í gegnum Skype þannig að reynt er eftir fremsta megni að halda kennslu áfram. 

„Þetta er bara það líkamlegt nám að það skiptir rosalega miklu máli að hafa kennarann og samnemendur með sér í sama rými. Það að vera einn inn í herbergi einhvers staðar er ekki alveg að skila því sama.“

Tómas segir stemminguna í skólanum hafa breyst mikið um helgina og Covid-19 faraldurinn farið úr því að vera eitthvað undirliggjandi sem margir voru meðvitaðir um en veltu kannski ekki mikið fyrir sér, yfir í það að skólinn gæti mögulega lokað í þrjá mánuði. „Þá fór þetta að verða svolítið stressandi.“ Þá séu flestir svekktir yfir því að allar sýningar nemenda hafa verið blásnar af en vinna við þær hefur verið í gangi alla önnina. 

Mikil óvissa ríkir um framhaldið í skólanum, margir nemendur hafa ákveðið að fara heim og kennarar hafa raunar mælt með því. Eins og er eru þeir þó ekki að missa úr miklu þar sem páskafríið er rétt handan við hornið. „Skólinn veit hins vegar ekkert hversu lengi þetta mun vara eftir að páskafríinu líkur og ég vona bara innilega að ég geti byrjað aftur í skólanum þegar hann á að byrja 27. apríl,“ segir Tómas. „En það er mjög gott að vera að koma heim og vera með fjölskyldunni í gegnum þessa erfiðu tíma.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Geir
Tómas Geir er nemandi í Bretlandi.

Ásta Júlía Grímsdóttir stundar nám og spilar körfubolta í Houston Baptist háskóla í Texas í Bandaríkjunum. Hún hefur ákveðið að koma heim til Íslands eftir mikla rekistefnu innan skólans síðustu daga. Skólar í kringum hana og víða í Bandaríkjunum hafa verið að taka ákvarðanir um að kennsla fari fram á netinu það sem eftir lifir árs en sú ákvörðun hefur ekki verið tekið hjá Houston Baptist. 

Ásta segir stemminguna vera mjög súra í skólanum, það sé búið að aflýsa öllum íþróttum og eiginlega enginn er á skólasvæðinu. Í síðustu viku var hið alræmda vorfrí (e. spring break) þar sem nemendur í Bandaríkjunum ferðast mikið en hún fór sjálf til New York. Sex dögum eftir að hún kom heim var henni svo sagt að hún þyrfti að fara í sóttkví, mætti fá sér að borða en þyrfti annars að vera inni í herbergi. „Ég var mjög hissa á þessari ákvörðun af því ég var þarna búin að vera heima í sex daga, fara nokkrum sinnum í ræktina og vera í kringum fullt af fólki,“ segir hún. Daginn eftir var henni svo sagt að hún þyrfti ekki að vera í sóttkví.

„Þetta eru mjög skrítnar og misjafnar upplýsingar sem maður er að fá hérna, sem sýnir rosa vel hvað þau vita ekkert hvað þau eru að díla við.“

Skólinn heldur því enn til streitu að hann muni byrja aftur innan nokkurra vikna, þó svo að aðrir skólar í landinu hafi tekið ákvörðun um að skólastarf verði í gegnum netið út árið. Þessi staða er ekki síst erfið fyrir alþjóðlega nemendur sem þurfa að ákveða hvort þeir vilji taka sénsinn og vera aðeins lengur í Houston ef skólinn skyldi byrja aftur en ef ekki eiga þá mögulega hættu á að komast ekki heim ef landamærum lokar. „Ég tók þá ákvörðun að koma heim og þarf þá bara að koma aftur ef skólinn byrjar aftur. Þetta er bara mjög flókin staða.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Júlía
Ásta Júlía stundar nám í Bandaríkjunum