Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslenskir kraftaverkahundar syngja óperu

Mynd: Arndís Björk Ásgeirsdóttir / RÚV

Íslenskir kraftaverkahundar syngja óperu

15.10.2019 - 13:39

Höfundar

Hundurinn Snóker kom eigendum sínum á óvart þegar hann var aðeins hvolpur og hefur síðan sungið fyrir þau aríur af mikilli list og innlifun á hverjum degi. Arndís Björk Ásgeirsdóttir heimsótti söngelska hunda og ræddi við Hönnu Maríu dýralækni um það hvers vegna dýrin okkar sækja sum í að hlýða á og jafnvel flytja tónlist.

Tónlist af ýmsu tagi hefur mótað menningar- og tilvistarsögu mannkyns frá örófi alda. Hægt er að tengja ólíka tónlist við mismunandi menningarsögulegan tíma meðal annars út frá ákveðnum tískubylgjum, en hún skiptist einnig í klassíska tónlist, jaðartónlist og popptónlist eftir því hvernig hún hljómar og við hvaða tilefni hún er leikin. Það er þó ekki aðeins mannfólkið sem býr til tónlist og nýtur hennar. Margir hafa týnt sér í áhorfi á myndskeið af páfagaukum dansa við helstu samtímasmellina, séð hunda spangóla og fíla dilla sér við trommuslátt. Arndís Björk Ásgeirsdóttir hitti fyrir nokkra tónelska hunda og rannsakaði hvernig ást eða jafnvel hatur þeirra á ákveðinni tónlist birtist.

Stillir sér upp eins og tenór

Hundurinn Snóker er tíu ára og er alinn upp á mjög tónelsku heimili. Hann bý hjá hjónunum Agnesi Löve píanóleikara og Reyni Jónssyni harmonikkuleikara og byrjaði að syngja með tónlistariðkun þeirra strax sem hvolpur og hefur síðan þá sungið sínar aríur af mikilli list og innlifun. Þegar húsráðandi tyllir sér við píanóið á morgni hverjum stillir Snóker sér prúður við hlið hennar tilbúinn í sönginn. Því næst taka þau nokkur lög saman sem hann syngur undir af mikilli list. „Snóker vill hafa meðspilara, hann syngur til dæmis ekki með útvarpi eða sjónvarpi. Þegar ég æfi mig á morgnanna stillir hann sér upp eins og söngvari og hann veit nákvæmlega hvenær við byrjum að syngja,“ segir Agnes. Þegar Snóker syngur vill hann helst hafa sem flesta áheyrendur í kringum sig. Snóker er þó ekki mikið fyrir popptónlist.

En kann Agnes skýringar á þessari söngást Snókers? „Ég held þetta sé nú bara kraftaverk,“ segir hún.

Mynd: RÚV / RÚV
Í spilaranum hér fyrir ofan má hlýða á söng Snókers

Syngur aðeins með kvenröddum

Rúrí Jónsdóttir á svo tíkina Spörtu sem einnig er gjörn á að taka lagið. Sparta sem er að verða átta ára gömul hefur tekið miklu ástfóstri við söngkonuna Olgu Borodinu en alltaf þegar rödd hennar ómar í viðtækinu tekur Sparta undir. „Hún syngur bara með kvennaröddum og elskar Olgu sérstaklega. Ef það eru margir í kring verður hún feimin, hún vill helst vera ein með tónlistinni,“ segir Rúrí. Sparta er þriðji hundurinn hennar en fyrsti söngvarinn.

Mynd: Arndís Björk Ásgeirsdóttir / RÚV
Í spilaranum má hlýða á Spörtu og Olgu syngja saman

Grætur þegar eigandinn spilar á píanóið

Þáttastjórnandi á svo sjálf hund sem ekki er mikið fyrir tónlist, síst af öllu þegar hún leikur hana. Hundinum Myrru getur reyndar verið svo í nöp við tónlistina að þegar eigandinn sest við píanóið og spilar á það grætur tíkin sáran. Hins vegar tekur hún það ekki inn á sig þegar dóttirin á heimilinu spilar á píanóið. 

Mynd: RÚV / RÚV
Í spilaranum má heyra Myrru kvarta yfir píanóleik eiganda síns

Kýrnar vilja Mozart

Arndís hitti dýralækninn Hönnu Maríu Arnórsdóttur en hún sérhæfir sig í dýraatferlisfræði. Þar lærir hún um atferli dýra og hvernig hægt er að styðja dýrin þegar þeim líður illa andlega. „Það má segja að þessi hluti dýralæknisfræði hafi breyst á undanförnum árum og komi meira og meira í ljós.“ Áhrif tónlistar á dýr hafa verið rannsökuð og meðal annars komið í ljós að Mozart hefur jákvæð áhrif á kýr í fjósi og klassísk tónlist hefur jákvæð áhrif á hesta í streituvaldandi aðstæðum. Hjartsláttur þeirra nær eðlilegum hraða fyrr en ella og verður jafnari. „Klassísk tónlist er nærri okkar hjarta og eins dýranna því við finnum fyrir henni,“ segir Hanna María. „Betra er að tónlist sé í hægari kantinum en hún hefur sömu áhrif á púls dýra eins og okkar.“

Hanna segir að það hafi margir hlegið þegar spjaldtölvur voru teknar í notkun á dýraspítölum á Íslandi til að leika tónlist fyrir dýrin til að róa þau. „Það er ekki hlegið lengur,“ segir Hanna María. „Þetta hefur áhrif og er ódýrt hjálpartæki til að líða betur.“

Syngja fyrir knús

Hvað fær hunda eins og Snóker og Spörtu til að syngja með eigendum sínum? Dýrin tengja við tónana í lögunum, segir Hanna María. Einnig sé þetta verðlaunuð hegðun í einhverjum tilfellum. „Oftast syngja hundarnir bara í námunda við eiganda. Ef eigandinn byrjar að góla tekur hundurinn undir. Þetta er eitthvað sem er þau gera saman og svo er það styrkt þegar hundurinn fær klapp og knús í kjölfarið.“

Sogskálar á sálina

Hanna er eini dýralæknirinn sem sérhæfir sig í dýraatferlisfræði. Hún segir atferlisfræðina opna nýjar víddir í dýralækningum. „Það er eins með fólk og þjóðarsálina að við verðum að huga að sál dýranna. Dýrunum sem búa hjá okkur líður til dæmis illa ef okkur líður illa,“ segir Hanna. „Púls hunda er gjarnan í takt við púls eiganda enda eru þau sem sogskálar á sálina okkur sem taka upp okkar líðan. Það þekkja þeir sem ungangast dýr að þeim líður gjarnan sérstaklega vel í kringum þá sem eru rólegir og yfirvegaðir.“

Á Youtube og Spotify á finna tónlist sem talin er höfða sérstaklega til hunda annars vegar og katta hins vegar í þeim tilgangi að stuðla að vellíðan þeirra og ró. Hanna hvetur dýraeigendur til að prufa að spila slíka tónlist fyrir dýrin sín en bendir þó á að það virki ekki eins fyrir alla. „Þetta er tónlist sem oft getur verið erfið fyrir fólk að hlusta á en tónlist er auðvitað nánast allra meina bót þegar okkur líður illa í sálinni.“ Það sama gildir um mannfólk og önnur dýr.

Arndís ræddi við Hönnu Maríu Arnórsdóttur í þættinum Tónlist frá A til Ö. Hægt er að hlýða á allt viðtalið við Hönnu Maríu í spilaranum efst í fréttinni en allan þáttinn með söng þeirra Spörtu og Snókers má nálgast hér

Tengdar fréttir

Tónlist sem fólk getur grenjað yfir

Tónlist

Tónlist fyrir ketti